Félag íslenskra kvikmyndatökustjóra gagnrýna Edduverðlaunin, sem fram fóru í gær, harðlega í nýrri yfirlýsingu sem send var á fjölmiðla í dag. Í yfirlýsingunni segir að RÚV upphefji eigin verk á kostnað fagmanna í kvikmyndageiranum.

Edduverðlaunin, uppskeruhátíð kvikmynda- og sjónvarpsgerðar, fór fram í gær og fjallaði Fréttablaðið ítarlega um verðlaunaafhendingar. Það vakti þó athygli að um miðja útsendingu var sýnt frá verðlaunaafhendingu fagverðlauna í stuttri stiklu sem tekin hafði verið upp fyrr um kvöldið. Voru m.a. þakkarræður verðlaunahafa klipptar út. Er þetta gagnrýnt harðlega í yfirlýsingu ÍKS.

Í yfirlýsingunni, sem Bergsteinn Björgúlfsson formaður kvittar undir, segir að afgreiðsla útsendingar af fagverðlaununum lýsi „vanvirðingu við störf þeirra fjölmörgu fagaðila sem standa að baki íslenskrar kvikmyndagerðar“. „Stjórnendur RÚV detta í þá grifju að eyða bróðurparti útsendingartíma í að upphefja eigin verk á kostnað fagmanna í geiranum. Eddan er uppskeruhátíð kvikmyndagerðar á Íslandi, ekki árshátíð sjónvarpsstöðva,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni, sem má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Yfirlýsing ÍKS í heild sinni:

Í tilefni afhendingar Edduverðlaunanna viljum við koma eftirfarandi ályktun á framfæri.

Sú ákvörðun RÚV, að snýta af afhendingum fagverðlauna Eddunnar, fyrir útsendingu og sýna þau síðan í klipptum stubbum án þakkarræðna, lýsir vanvirðingu við störf þeirra fjölmörgu fagaðila sem standa að baki íslenskrar kvikmyndagerðar. Stjórnedur RÚV detta í þá grifju að eyða bróðurparti útsendingartíma í að upphefja eigin verk á kostnað fagmanna í geiranum. Eddan er uppskeruhátíð kvikmyndagerðar á Íslandi, ekki árshátíð sjónvarpsstöðva. ÍKS krefst þess að stjórnendur RÚV og stjórn Eddunnar taki á þessu og komi í veg fyrir að slíkt verði framtíðarformið á þessarri faghátíð okkar.