Mikil úrkoma sem féll fyrri hluta sumars á Suðvesturlandi er líklegasta skýringin fyrir því að viðkoma rjúpunnar var ein sú lélegasta sem mælst hefur hér á landi. Rigningin hafi „grandarð ungum langt umfram það venjulegt er“.

Þetta kemur fram á vef Náttúrufræðistofnun Íslands. Þrátt fyrir að rjúpum hafi fjölgað mikið frá því í fyrra leggur stofnunin til að veiðidagar verði áfram tólf.

Stofnunin ákvað að miða við slaka afkomu á Suðvesturlandi frekar en góða á Norðausturlandi. Varpstofn rjúpu 2018 var metinn 293 þúsund fuglar en var 173 þúsund fuglar í fyrravor. Hann hefur ekki verið metinn stærri síðan árið 1986, eða í 32 ár.

Veiðistofninn er metinn 758 þúsund fuglar samanborið við 649 þúsund í fyrra. 

Stofnstærðin er að mati stofnunarinnar ofmetin í þessum útreikningum. „Þá er það skoðun Náttúrufræðistofnunar Íslands að varúðarreglan skuli gilda og miða reiknaða stofnstærð við viðkomuna líkt og hún mældist á Suðvesturlandi (hlutfall unga 68%) frekar en á Norðausturlandi (hlutfall unga 77%).“

Lagt er til að veiddar verði 67 þúsund rjúpur.

Hér má lesa bréf Náttúrufræðistofnunar Íslands til umhverfis- og auðlindaráðherra. Í því segir meðal annars: „Náttúrufræðistofnun leggur mikla áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirri viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar.“