Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingkona Pírata, sagði á þingi í dag að Jón Gunnarsson, innanríkisráðherra hefði talað með hroka í grein sinni á Vísi í gær og Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, tók undir það og sagði viðbrögð ráðherra forkastanleg. Í greininni fjallar ráðherrann um breytt vinnulag Útlendingastofnunar við veitingu ríkisborgararéttar sem sett var á í sumar til að stytta biðtíma. Tilefni greinarinnar var umræða á þingi í gær um sama mál.

Fleiri þingmenn tóku undir orð Arndísar og Helgu Völu og sagði Sigmar Guðmundsson upplýsingagjöf til allsherjar- og menntamálanefndar hafi verið þversagnakennd frá þeim sem koma í umboði ráðherra og það sem ráðherra segir í grein sinni á Vísi í gær og kallaði eftir því að forseti árétti við ráðherra að hann fari eftir lögum og sýni Alþingi virðingu.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, var harðorður í garð ráðherra og kallaði eftir því að forseti tæki málið upp við hann.

„Þessi lítilsvirðing ráðherra, sem birtist í grein hans á Vísi, eru eitthvað sem ég vænti þess að forseti taki upp mjög alvarlega við ráðherrann og það að hann telji sig geta tilkynnt einhliða hvernig Alþingi á að starfa bendir til þess að hann þurfi kennslustund í stjórnsýslu,“ sagði Andrés Ingi.

Jón Gunnarsson er innanríkisráðherra.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Þingmennirnir fóru margir aftur í pontu til að bæta við mál sitt og sögðu að gagnrýni á vinnulag við veitingu ríkisborgararéttar einskorðist ekki við stjórnarandstöðuna og gagnrýndu harðlega það sem kemur fram í grein Jóns Gunnarssonar á Vísi.

Bryndís Haraldsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, tók undir gagnrýni á þetta og að ráðuneyti eða ráðherra geti ekki einhliða breytt verklagi en sagði að það væri hafið gott samtal vegna málsins og sagði að það þyrfti að finna betra fyrirkomulag til framtíðar.

Fréttin hefur verið uppfærð klukkan 13:09 með betri vísun í grein innanríkisráðherra á vef Vísis.