Rúm­lega 80 konur, sem segjast vera stuðnings­hópur ó­lög­ráða barns, hafa nú gefið út yfir­lýsingu þar sem við­tal Stöðvar 2 við Kol­brúnu Önnu Jóns­dóttur, eigin­konu Ólafs Willi­am Hand, er harð­lega gagn­rýnt. Við­talið átti að vera sýnt í gær en því var frestað vegna mikilla mót­mæla þar sem ó­lög­ráða barn á hlut í málinu.

Meðal þeirra sem gagn­rýndu við­talið var hreyfingin Líf án of­beldis en þau sögðu Kol­brúnu fá við­tal á „besta tíma í sjón­varpi allra lands­manna“ til að lýsa yfir sak­leysi hennar og Ólafs. Aug­lýsing fyrir við­talið á Face­book síðu Ís­lands í dag var í kjöl­farið tekið út og til­kynnt að málið væri í vinnslu hjá dag­skrár­deild sjón­varpsins. Við­talið var síðan birt í kvöld.

Ólafur var dæmdur í tveggja mánaða skil­orðs­bundið fangelsi fyrir of­beldi gegn barns­móður sinni sumarið 2016 en hann hefur nú á­frýjað dómnum og er málinu ekki enn lokið. Kol­brún var einnig á­kærð en hún var sýknuð. Í við­talinu sem sýnt var í Ís­land í dag í kvöld, og í bókinni Ákærð sem Kolbrún gaf nýverið út, er frá­sögn hennar af at­burða­rásinni mjög ólík þeirri sem kemur fram í dómnum.

Stöð 2 áður verið ávítt fyrir alvarlega óvirðingu í málinu

Að því er kemur fram í yfir­lýsingu hópsins á málið langa for­sögu og bent er á ein­hliða um­fjöllun Ís­lands í dag í febrúar 2017 þar sem Ólafur Hand fjallaði um sína sögu. „Við­talið var sam­felld árás á barn Ólafs og barns­móður. Á­horf­endur fengu engar upp­lýsingar um raun­veru­legt til­efni leik­ritsins sem Stöð 2 setti á svið þennan dag,“ segir í yfir­lýsingunni sem birtist í heild sinni á Vísi.

„Ó­virðing Stöðvar 2 við alla aðra aðila málsins fyrir utan Hand-hjónin er tak­marka­laus. Siða­nefnd Blaða­manna­fé­lagsins á­vítti Stöð 2 fyrir al­var­lega ó­virðingu við barns­móðurina og fjöl­skyldu barnsins. Þau voru þol­endur opin­berar um­fjöllunar um al­var­legt of­beldis­verk sem var í á­kæru­ferli,“ segir enn fremur og því haldið fram að Stöð 2 veiti hjónunum „sér­með­ferð sem varla nokkurt annað sakað fólk hefur fengið.“

Hópurinn telur að Stöð 2 hafi látið nota sig sem máls­varnar­tæki og að af­staða þeirra í málinu sé eins­dæmi. „Skuld Stöðvar 2 við sann­leikann og rétt­lætið er mikil, ekki síst gagn­vart barninu sem er hið eigin­lega fórnar­lamb. Ekkert af því sem Stöð 2 hefur borið fram til þessa átti neitt erindi í fjöl­miðla.“

Barnsmóðirin vilji ekki reka málið fyrir fjölmiðlum

„At­hygli hefur vakið að barns­móðirin í málinu hefur engan þátt tekið í að fjöl­miðla­væða málið heldur lagt allt sitt undir í að vernda barnið fyrir ó­vægnu á­reiti sem ó­hjá­kvæmi­lega hefur fylgt bæði því of­beldi sem móðir þess var beitt að því á­sjáandi og þeirri opin­beru ein­hliða um­fjöllun sem hjónin hafa mark­visst beitt sér fyrir.“

Þá er vísað til Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna og því haldið fram að Stöð 2 hafi brotið gegn grund­vallar­reglum sátt­málans með ein­hliða um­fjöllun sinni. „Rann­sóknar­aðilar málsins; lög­regla, ríkis­sak­sóknari og Héraðs­dómur Reykja­víkur hafa sam­kvæmt lands­lögum látið verkin tala og ekki brugðist barninu.“

„Ólafur Hand og Kol­brún Jóns­dóttir hafa á öllum stigum saka­málsins fengið tæki­færi til að verja sig með sinni sögu og rökum og gengið lengra með ein­hliða frá­sögnum í fjöl­miðlum af málinu. Það er í dóms­sal sem mál­flutningur þeirra hefur alla tíð átt heima, ekki á sjón­varps­skjá lands­manna með frétta­menn í hlut­verki klapp­stýra,“ segir að lokum í yfir­lýsingunni.