Matvælastofnun vill ekki falla frá niðurskurði á sauðfé á bænum Syðri-Hofdölum
í Skagafirði og segist telja líklegt að riðusmit sé til staðar í á bænum.

RÚV greindi frá því í gær að beiðni landbúnaðarnefndar Skagafjarðar um að stöðva niðurskurð á bænum vegna riðu hafi verið hafnað af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Riða hefur greinst á fimm sauðfjárbúum í Tröllaskagahólfi og hófst niðurskurður á búunum Hofi og Stóru-Ökrum í byrjun nóvember.

Fordæmi fyrir því að grípa til annarra aðgerða

Í bókun sem landbúnaðarnefndin sendi frá sér 10. nóvember kallaði hún eftir því að skoðað yrði hvort skipulögð og markviss hreinsun á býlinu og strangt eftirlit í tiltekinn tíma undir stjórn héraðsdýralæknis myndi ekki skila sama árangri og niðurskurður. Með því væri hægt að komast hjá fjárhagslegu tjóni fyrir bændur og ríkisvaldið.

Þá sagði að fordæmi væru fyrir því að gripið hafi verið til slíkra aðgerða í stað þess að skera niður allt fé á býli. Þegar beiðnin kom fram var búið að lóga öllum dýrum sem komust í návígi við smitaða hrútinn sem riðan er rakin til og greindist ekkert þeirra með riðu.

Óverjandi að halda hjörðinni lifandi

Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að margar smitleiðir hafi verið milli fjárins sem umgekkst hrútinn sem greindist með riðu og allrar hjarðarinnar.

Þó riða hafi ekki greinst í fénu sem umgekkst hrútinn beint sé ekki þar með sagt að það hafi ekki verið smitað.

Þá hafi áhrif að næmni prófsins sem notað er til að greina riðusmit geti verið svo lágt sem 66% og þess vegna finnist ekki riðusmit í öllum kindum þó þær séu smitaðar.

„Það er mat stofnunarinnar að óverjandi sé að halda hjörð lifandi sem líkur eru á að sé smituð og getur því leitt til frekari útbreiðslu veikinnar,“ segir í tilkynningu.