Smit­sjúk­dóma- og sótt­varna­yfir­völd í Banda­ríkjunum (CDC) hafa nú gefið út að það sé í lagi að fólk fái ólík bólu­efni þegar það er fyrst bólu­sett og svo þegar það fær örvunar­skammt. Stað­fest var þar í gær að milljónir Banda­ríkja­manna geta sótt um að fá örvunar­skammt og geta valið annað bólu­efni en þau fengu fyrst.

Mat­væla- og lyfja­eftir­litið í Banda­ríkjunum hafði þegar leyft slíka „blöndun“ ból­efna þegar örvunar­skammtarnir eru gefnir og sér­stök nefnd sótt­varna­yfir­valda hafði sam­þykkt það en loka­á­kvörðunin varð að koma frá yfir­manni Sótt­varna­stofnunarinnar, Rochelle Wa­len­sky, um hver myndi fá örvunar­skammt og hvaða bólu­efni þau mættu fá.

Það eru enn ein­hverjar tak­markanir á því hverjir mega fá örvunar­skammta í Banda­ríkjunum en miðað er við að í það minnsta sex mánuðir líði fyrir þau sem voru bólu­sett með Moderna og Pfizer og að þau hafi náð 65 ára aldri, séu á hjúkrunar­heimili eða ef þau eru með undir­liggjandi sjúk­dóma, að þau séu orðin 50 ára. Þá er einnig mælt með örvunar­skammti fyrir þau sem eru í meiri smit­hættu vegna starfs síns eða bú­setu. Það er til dæmi heil­brigðis­starfs­fólk, kennarar og þau sem eru heimilis­laus.

Mæla með öðru bóluefni fyrir þau sem fengu Janssen

Þá er mælt með örvunar­skammti fyrir þau sem voru bólu­sett með Jans­sen bólu­efninu og er miðað við að fólk sé bólu­sett með örvunar­skammti um tveimur mánuðum eftir fyrstu bólu­setningu. Það er vegna þess að rann­sóknir og reynsla sýnir að Jans­sen bólu­efnið veitir ekki eins góða vörn og tveir skammtar af Pfizer og Moderna.

Í um­fjöllun AP um málið segir að nefnd Sótt­varna­yfir­valda mæli ekki endi­lega sér­stak­lega með því að fólk fái sér annað bólu­efni en það fékk fyrst, en ekki er tekið fram að það sé nauð­syn­legt. Meiri festa er sett í að fólk sem þess þarf, fái örvunar­skammt.

Þá er sér­stak­lega mælt með því að þau sem voru bólu­sett með bólu­efni Jans­sen fái annað bólu­efni og að meiri vörn fáist með því.

Ráð­gjafi sótt­varna­yfir­valda, Helen Keipp Tal­bot, segir það ó­metan­legt að fólk geti valið hvaðan þær fær örvunar­skammtinn því ó­líkir hópar eru í hættu vegna sjald­gæfra auka­verkanna bólu­efnanna.

Fram kemur í frétt AP að um tveir þriðju Ameríkana séu bólu­sett og for­gangur yfir­valda sé að bólu­setja þau sem enn eru óbólu­sett en að örvunar­skammtar geti við­haldið góðri vörn og að bólu­efnin séu talin góð vörn gegn al­var­legum veikindum og dauða í kjöl­far þess að smitast af Co­vid-19.

Meiri­hluti Ameríkana var bólu­settur með bólu­efni Pfizer eða Moderna, eða 190 milljón manns, en um 15 milljónir voru bólu­sett með bólu­efni Jans­sen.

Um­fjöllun AP er hér.