Þroskaþjálfafélag Íslands (ÞÍ) hefur tilkynnt Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, þingmann Miðflokksins, til Landlæknisembættisins. Samkvæmt yfirlýsingu frá félaginu er ástæðan sú að Anna Kolbrún hefur titlað sig þroskaþjálfa í æviágripi sínu á vef Alþingis án þess að hafa hlotið menntun eða starfsleyfi frá embættinu.

„Þetta er ekki rétt. ÞÍ hefur staðfestingu frá Landlæknisembættinu um að þingmaðurinn hafi hvorki hlotið menntun sem þroskaþjálfi né fengið starfsleyfi frá embættinu. Raunar hefur æviágripi þingmannsins á vef Alþingis nú verið breytt og er starfsheitið þroskaþjálfi ekki lengur nefnt þar,“ segir í yfirlýsingunni.

Af tilefninu vill félagið árétta að starfsheitið þroskaþjálfi er lögverndað. Samkvæmt íslenskum lögum mega þeir einir nota þetta starfsheiti sem hlotið hafa til þess menntun og fengið starfsleyfi frá Landlæknisembættinu.

Tilkynnt til Landlæknis

„Þroskaþjálfafélagið harmar að starfsheitið þroskaþjálfi hafi verið misnotað með þessum hætti enda þótt starfsheitið sé ekki lengur að finna í æviágripi þingmannsins. Félagið hefur þegar tilkynnt brotið til Landlæknisembættisins sem er eftirlitsaðili samkvæmt lögum um heilbrigðistarfsmenn,“ segir enn fremur.

Þar segir að lokum að í lögum komi fram að þeim sem ekki hefur gilt leyfi landlæknis sé óheimilt að nota löggilt starfsheiti eða starfa sem heilbrigðisstarfsmaður. Brot gegn ákvæðum laga um heilbrigðisstarfsmenn og reglna sem settar eru á grundvelli þeirra varði sektum eða fangelsi allt að þremur árum.

Fimm dagar í umhugsun

Eins og frægt er orðið var Anna Kolbrún meðal þeirra sex þingmanna sem sátu og níddu skóinn af fjölmörgum þingmönnum og fólki úr samfélaginu á barnum Klaustur kvöldið 20. nóvember. Enginn þingmannanna hefur sagt af sér þrátt fyrir að stór meirihluti sé á því að þeir geri slíkt. Þrír af hverjum fjórum telja, samkvæmt könnun Maskínu, að Anna Kolbrún eigi að tilkynna afsögn sína.

Þeim Karli Gauta Hjaltasyni og Ólafi Ísleifssyni, úr Flokki fólksins, var hins vegar vísað úr flokknum á föstudaginn var. Þá hafa Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason úr Miðflokknum verið sendir í leyfi án þess að neinar frekari skýringar fylgi hvað í því felst. Anna Kolbrún kvaðst fyrir fimm dögum ætla að íhuga stöðu sína á þingi en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur sagst ekki sjá ástæðu til að segja af sér en að hann harmi umræðurnar mjög.

Yfirlýsing ÞÍ í heild sinni.