Þúsundir hafa nú safnast saman víðs vegar í Frakk­landi til þess að mót­mæla nýju frum­varpi sem segir meðal annars til um upp­tökur af lög­reglu. Í mynd­böndum sem meðal annars BBC birtir má sjá mót­mælendur kasta flug­eldum að lög­reglu. Í kjöl­farið hafi lög­regla beitt tára­gasi gegn mót­mælendunum. Víða hefur komið til átaka milli lögreglu og mótmælenda.

„Þetta frum­varp miðar að því að grafa undan frelsi fjöl­miðla, frelsisins til að fræða og til að fræðast, frelsi tjáningarinnar,“ segja skipu­leggj­endur mót­mælanna, sam­kvæmt heimildum AFP. Gert er ráð fyrir að fleiri muni bætast í hóp mót­mælenda á næstunni en nú þegar hafa verið skipulögð mótmæli víðs vegar í landinu.

Ætlunin að vernda lögreglu

Neðri deild franska þingsins sam­þykkti frum­varpið í síðustu viku og er nú beðið eftir að efri deild þingsins stað­festi frum­varpið. Ef frum­varpið yrði að lögum myndi það meðal annars verða ó­lög­legt að taka myndir eða mynd­bönd af lög­reglu­mönnum „af mein­fýsni“ meðan þeir eru á vakt.

Sam­kvæmt frum­varpinu getur fólk átt von á 45 þúsund evra sekt ef þeir gerast brot­legir við lögin, upp­hæð sem sam­svarar um 160 þúsund ís­lenskra króna. Stjórn­völd neita því að lögin komi til með að skerða réttindi borgara, þau séu að­eins hugsuð til þess að vernda lög­reglu­menn.

Myndband á lögreglu ráðast á svartan mann vakti reiði

Mót­mælin koma í kjöl­far þess sem að mynd­band af þremur hvítum lög­reglu­mönnum ráðast á svartan mann fór í dreifingu fyrr í vikunni. Í mynd­bandinu má sjá lög­reglu­menn hreyta rasískum um­mælum í manninn, Michel Zecler, auk þess sem þeir sjást sparka og kýla hann.

Zecler var staddur í íbúð sinni í París þegar at­vikið átti sér stað en lög­reglu­mönnunum hefur nú verið tíma­bundið vikið úr starfi á meðan málið er til rann­sóknar. Frakk­lands­for­seti Emmanuel Macron sagði at­vikið vera skammar­legt og krafðist þess að úr­bætur yrðu gerðar til að koma á trausti milli lög­reglu og al­mennings.

Þá hafa stjórn­völd í öðru máli krafið lög­reglu um skýrslu sem tengist at­viki í bráða­birgða flótta­manna­búðum í París fyrr í vikunni.