Bandaríska alríkislögreglan FBI birti í gær ný gögn sem tengjast hryðjuverkaárásunum 11. september 2001. Eru þetta fyrstu gögnin sem gerð verða opinber í fyrsta skipti eftir tilskipun sem Joe Biden Bandaríkjaforseti undirritaði nýverið.

Um er að ræða upplýsingar frá árinu 2016 um rannsókn alríkislögreglunnar á mögulegri aðstoð sádi-arabísks erindreka og meints sádi-arabísks njósnara við hryðjuverkamennina. FBI hafði grunað sádi-arabískan námsmann í Los Angeles að nafni Omar al-Bayoumi um að vera njósnari á vegum konungdæmisins. Í skýrslunni er hann sagður hafa veitt tveimur af hryðjuverkamönnunum gistihúsnæði, fjármagn og ferðaaðstoð í aðdraganda árásanna.

Flestir árásarmennirnir sem báru ábyrgð á hryðjuverkunum voru sádi-arabískir og því hafa lengi verið uppi ásakanir um að ríkisstjórn eða embættismenn konungsríkisins hafi átt þátt í að skipuleggja árásina. Sendiráð Sádi-Arabíu í Bandaríkjunum lét þau orð falla á miðvikudaginn að Sádar tækju birtingu gagnana fagnandi og að „allar aðdróttanir um að Sádi-Arabía hafi átt þátt í árásunum 11. september [væru] með öllu ósannar.“

Engin bein sönnun er í skýrslunni fyrir því að sádi-arabískir embættismenn hafi átt þátt í árásinni en stórir hlutar skýrslunnar eru strikaðir út. Engu að síður telur hópur ættingja og vina þeirra sem létust í árásunum skýrsluna renna frekari stoðum undir grun þeirra um aðild Sáda að árásinni.

„Uppgötvanir og niðurstöður í þessari rannsókn FBI styrkja þau rök sem við höfum fært fram í málaferlum um ábyrgð ríkisstjórnar Sádi-Arabíu á árásunum 11. september,“ sagði Jim Kreindler, lögfræðingur ættingjanna. „Þessi skýrsla, ásamt opinberum sönnunargögnum, sýnir hvernig Al-Kaída starfaði innan Bandaríkjanna með virkum og meðvituðum stuðningi sádi-arabísku stjórnarinnar.“

Ættingjar hinna látnu höfðu hvatt Biden til þess að mæta ekki á minningarathafnir á tuttugu ára afmæli árásanna nema að gögnin yrðu gerð opinber. Biden skipaði dómsmálaráðuneytinu að gera úttekt á gögnunum til að geta birt sum þeirra á næstu sex mánuðum.