Gervihnattamyndir af eldflaugaskotastöð nærri norður-kóresku höfuðborginni Pyongyang gefa til kynna að Norður-Kóreumenn ætli sér brátt að skjóta eldflaug eða gervihnetti á loft, ef marka má umfjöllun BBC.

Á myndunum má sjá að aukin virkni er á svæðinu sem kallast Sanumdong en þar hafa norður-kóresk yfirvöld sett saman flest af eldflaugum sínum en fyrr í vikunni birtust fréttir af því að Norður-Kórea hefði endurbyggt eldflaugaskotpalla í Soahe. Koma fréttirnar í kjölfar árangurslausa leiðtogafundar Kim-Jong Un og Donald Trump í Víetnam í síðustu viku. Norður-Kóreumenn kenna Japönum að mestu leyti um að fundurinn hafi farið út um þúfur.

Sjá einnig: Kalla Japana dverga með svört hjörtu

Blaðamaður BBC í Seoul í Suður-Kóreu, Laura Bicker, segist telja að norður-kóresk yfirvöld gætu með skotinu viljað láta reyna á staðfestu Bandaríkjanna, í von um að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, samþykki að afnema allar refsiaðgerðir en líkt og fram hefur komið var fundi hans og Kim slitið vegna þess að hann var ekki tilbúinn að fallast á þær kröfur.

Sérfræðingar telja jafnframt líklegra að norður-kóreumenn muni skjóta upp gervitungli, til að sýna fram á að tæknin sé enn til staðar en Bandaríkin hafa róið að því öllum árum að afkjarnorkuvæða Kóreuskagann.