Reykjavíkur-leiðtogavísitalan, Reykjavik Index for Leader­ship, er mælikvarði á hvernig samfélagið lítur á konur og karla með tilliti til forystuhæfni. Vísitölunni er ætlað að kanna viðhorf til kvenkyns forystu og var hleypt af stokkunum árið 2018 sem samstarfsverkefni Women Political Leaders og rannsóknafyrirtækisins Kantar.

Staðan er tekin árlega. Niðurstöðurnar í ár kynnti Michelle Harri­son, forstjóri Kantar Global, fyrir Heimsþingi kvenleiðtoga sem nú fer fram í Hörpu. Þar kom fram að viðhorf til kvenna í leiðtogastöðum í iðnríkjunum sjö, svokölluðum G7-ríkjum, hefði staðið í stað síðan 2018. Þá kemur fram í gögnum Kantar að ungt fólk hafi meiri fordóma gegn kvenleiðtogum en eldri kynslóðin og í þeirri þróun sé mælanlegur vöxtur frá árinu 2018.

Harrison fullyrti að þær endurspegluðu stöðnun og bakslag á viðhorfi til kvenna til forystu, einkum í G7-ríkjunum. „Þær mælast á sumum sviðum lægri en þegar vísitalan var birt í fyrsta sinn árið 2018,“ sagði hún.

Vísitalan er frá 0 til 100; einkunn upp á 100 þýðir að í samfélaginu ríki samkomulag um að karlar og konur henti jafn vel til forystu í öllum greinum. Í mælingunum er Ísland efst með 91 stig og Spánn kemur næst á eftir með 80 stig. Þá er Bretland í þriðja sæti með 71 stig.

Rannsóknir árið 2018 til 2020 náðu aðeins til G7-landanna, en skýrsla áranna 2020 til 2021 náði yfir G7-löndin auk Indlands, Kenýa og Nígeríu.

„Það er sláandi hvað er auðvelt að fá bakslag,“ segir Sigríður Hrund Pétursdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA. „Það þarf ekkert mikið til. Það er engin sjálfbærni án kvenna. Konur eru helmingur af heiminum og helmingur af vinnuaflinu,“ segir hún.

„Á Íslandi eru tuttugu prósent af vinnuafli kvenna innflytjendur og þetta er eitthvað sem fólk er að uppgötva núna. Þá er þetta ekki lengur bara kynjajafnrétti heldur er þetta fjölbreytni og inngilding. Þetta fólk er vonandi komið til að vera. Við þurfum fleira fólk til að vinna.“

Sigríður Hrund segist hafa velt því fyrir sér í félagi við aðra gesti á þinginu, hvað valdi bakslaginu.

„Ég var að spjalla við konur sem eru komnar hingað til að ræða saman og við vorum að velta fyrir okkur af hverju börnin okkar eru með meiri fordóma en við. Ætli það sé af því að þau hafa ekki gengið í gegnum einhvers konar harðneskju og ekki átt þessa reynsluleið? Að þau alast upp við að hafa það mjög gott. Svo fórum við að velta fyrir okkur hvað fyrirmyndir skipta miklu máli. Ég ólst upp við það að ég vissi ekki að forseti gæti verið maður. Ég ólst upp við forseta sem konu í sextán ár.“