Miðflokkurinn fer yfir víðan völl í tilkynningu sem birtist nú rétt í þessu á Facebook síðu flokksins en þar kemur fram að þeir þingmenn flokksins sem boðaðir voru á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi enga skyldu til að mæta, fátítt sé að þingnefndir séu notaðar í jafn augljósum pólitískum tilgangi og átti að gera en slíkt eigi ekki að viðgangast.

Vísar tilkynningin þar í fréttir þess efnis frá því í morgun um að ekkert hafi orðið af fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd því ekki hafi náðst í Gunnar Braga Sveinsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson.

Þá segir í  tilkynningunni að alltaf sé hægt að ná í Sigmund Davíð Gunnlaugsson, af starfsmönnum Alþingis eða koma boðum til hans. „Svar við fundarboði var tilbúið en kl 17.00 var fundurinn afboðaður. Engin tímamörk voru höfð í fundarboði. Það var vitað að hvert svo sem svarið hefði orðið hefði það lekið í fjölmiðla nær samstundis.“ 

Enn fremur segir í tilkynningunni að „skýrslutaka yfir manneskju sem gerðist sek um eða tók á sig sök um hlerun er einungis einn liður í nauðsynlegri gagnaöflun.“ Flokkurinn geri fastlega ráð fyrir því að ýmislegt eigi eftir að koma fram.

„Rétt einstaklinga til friðhelgi ber alltaf að virða og er það okkar helsti útgangspunktur. Ekki er búið að ákæra neinn og ekki að fara fram á bætur frá neinum.“