Forsvarsmenn bandalags Sádi-Araba hafa lýst yfir iðrun og segja að mistök hafi ráðið því að skólarúta varð fyrir loftárás þeirra í Saada-héraði í Jemen snemma í ágúst. Yfir 40 börn létu lífið í árásinni sem var harðlega gagnrýnd í alþjóðasamfélaginu.

Talsmaður bandalagsins segir að sprengjunni hafi átt að vera varpað á leiðtoga Húta-hreyfingarinnar. Jafnframt lofi bandalagið að draga þá sem sáu um loftárásina fyrir þá til ábyrgðar.

Sjá einnig: Saka stríðandi fylkingar um stríðsglæpi

Mansour al-Mansour, liðsforingi hjá bandalaginu, segir að þeir hafi fengið upplýsingar um að leiðtogar Húta væru í rútunni. Segir hann að bandalagið sé reiðubúið að taka höndum saman með ríkisstjórninni í að reyna að bæta fjölskyldum fórnarlambanna upp með einhverjum hætti.

Ástandið hefur verið voveiflegt í Jemen um nokkra hríð núna. Hútar náðu tökum á stórum hluta í vesturhluta landsins árið 2015 þegar þeir gerðu uppreisn með þeim afleiðingum að Abdrabbuh Mansour Hadi, þáverandi forseti, flúði land.

Sádi-Arabar, stjórnvöld í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og sjö annarra arabaríkja litu svo á að uppreisnarmennirnir störfuðu í umboði Íransstjórnar og reyndu að hafa áhrif á skipan nýrrar ríkisstjórnar.

Frá því hafa um tíu þúsund manns látið lífið, tveir þriðju almennir borgarar. Auk þess hafa um 55 þúsund særst í átökum hinna stríðandi fylkinga. Auk þess eru 22 milljónir mannúðaraðstoðarþurfi og matarskortur mikill. Einnig hefur kólerufaraldur geisað um landið og herjað á milljónir.