Arkíbúllan, arkítektarstofan sem sem hannaði enduruppbyggingu braggans við Nauthólsvík, segir misskilning hafa gætt í fjölmiðlaumræðu síðustu daga um eftirlit stofunnar með vinnu á verkstað. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem fyrirtækið sendi frá sér fyrir stuttu.

Á þriðja hundrað milljóna króna framúrkeyrsla í kostnaði við framkvæmdir á bragganum hefur verið harðlega gagnrýnd. Meðal annars voru keypt strá sem gróðursett voru umhverfis braggann fyrir alls 757 þúsund krónur. 

Sjá einnig: Vildu strandstemningu með stráunum rándýru

Í yfirlýsingu frá arkítektarstofunni segir að verkið hafi verið unnið samkvæmt ákvörðun Reykjavíkurborgar. Þá segjast forsvarsmenn fyrirtækisins hafa hannað enduruppbygginguna í samræmi við óskir Reykjavíkurborgar.

Eins áréttar fyrirtækið að Margrét Leifsdóttir arkitekt sé starfsmaður Arkíbúllunnar en ekki einn af eigendum stofunnar. 

Sjá einnig: Hringdi bjöllum í Braggamáli

„Hún hefur ekki farið neinar ferðir erlendis á vegum þessa verkefnis. Varðandi margumrædd kaup á stráum, þá kom Arkíbúllan ekki að hönnun landslags á svæðinu. 

Um kostnað við þann verkþátt eins og aðra verkþætti framkvæmdarinnar hafði Reykjavíkurborg lokaorðið. Eftirlit Arkibúllunar fólst í að fylgjast með því að iðnaðarmenn fylgdu teikningum og verkin væru sannarlega unnin.“

Sjá einnig: „Það eru breiður af þessu við Hvaleyrarvatn“

Stofan bendir að lokum á að Reykjavíkurborg hafi gert alla samninga við verktaka og ber því ábyrgð á gerð og eftirfylgni kostnaðaráætlana á öllum stigum framkvæmda og ákvað að beita ekki útboðum í verkinu. 

„Þess vegna vísum við fyrirspurnum fjölmiðla sem varða þessa þætti verkefnisins til Reykjavíkurborgar,“ segir að lokum í yfirlýsingunni.