Allt að því milljón Rússa geta verið kvaddir í her landsins til að taka þátt í inn­­rásinni í Úkraínu en ekki þrjú hundruð þúsund eins og stjórn­völd hafa gefið út. Þetta herma heimildir ó­­háða rúss­neska fjöl­miðilsins Nova­ya Gazeta innan stjórnar Vla­dimírs Pútíns Rúss­lands­for­seta.

Eftir að for­­setinn greindi frá her­kvaðningunni var til­­­skipunin birt á opin­berri vef­­síðu rúss­neskra stjórn­valda. Í sjöundu grein til­­­skipunarinnar stendur einungis: „Til opin­berra nota.“ Sam­kvæmt rúss­neskum lögum er slíkt orða­lag notað þegar um trúnaðar­upp­lýsingar er að ræða.

Á blaða­manna­fundi eftir yfir­lýsingu Pútíns sagði Dmít­ríj Peskov tals­maður hans að á­stæða þess að þetta segði í sjöundu greininni væri að um væri að ræða trúnaðar­upp­lýsingar um fjölda þeirra sem eru í vara­liði hersins og kalla mega upp.

„Það eina sem ég get sagt er að Sergei Shoigu [varnar­mála­ráð­herra Rúss­lands] sagði í við­tali sínu: „300 þúsund manns“. Hér ræðir um fjöldann allt að því 300 þúsund manns“, sagði Peskov.

Vla­dimír Pútín og Dmít­ríj Peskov.
Fréttablaðið/EPA

Sam­­kvæmt heimildar­manni Nova­ya Gazeta var í upp­­hafi rætt um að öll til­skipunin yrði skil­­greind sem trúnaðar­­gagn og mun varnar­­mála­ráðu­neytið hafa talað fyrir því. Að lokum var á­­kveðið að einungis sjöunda greinin, talan yfir fjölda þeirra sem kveða mætti í herinn, yrðu trúnaðar­­upp­­­lýsingar.

Til að freista þess að sann­­reyna upp­­­lýsingar heimildar­­manns síns um að milljón Rússar, ekki þrjú hundruð þúsund, geti verið kvaddir í herinn hefur Nova­ya Gazeta óskað eftir svörum frá ýmsum ráðu­neytum landsins. Þegar um til­skipanir með trúnaðar­klausum er að ræða fá þau að jafnaði öll gögnin í hendurnar en svo virðist sem svo sé ekki í þessu til­­­felli. Enginn þeirra sem leitað var til hafði að­gang að sjöundu grein til­skipunarinnar að því er segir á vef Nova­ya Gazeta.