Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að malaríulyfið hýdroxíklórókín geti aukið lífslíkur COVID-19 sjúklinga.

Fyrri rannsóknir hafa gefið til kynna að notkun lyfsins hafi engin áhrif á framgöngu sjúkdómsins eða geti jafnvel reynst skaðleg.

Komu niðurstöður rannsóknarinnar sem birtar voru í vísindaritinu International Journal of Infectious Diseases því mörgum á óvart.

Fylgdust með 2.541 sjúklingi

Hýdroxíklórókín var á tímabili notað á smitsjúkdómadeild Landspítalans til meðferðar á COVID-19 og víða um heim allan.  

Umrædd rannsókn var á vegum heilbrigðisstofnunar í Michigan-ríki í Bandaríkjunum og náði til allra COVID-19 sjúklinga sem lagðir höfðu verið inn á sjúkrahús Henry Ford Health System, alls 2.541 talsins.

Að sögn Marcus Zervos, forstöðumanns smitsjúkdómadeildar stofnunarinnar, dóu þar 26,4% þeirra sjúklinga sem fengu ekki malaríulyfið samanborið við 13,5% þeirra sem fengu það sem hluta af meðferð sinni.

Líklegri til að fá hjartsláttartruflanir

Niðurstöður fyrri rannsóknar sem greint var frá í maí bentu til þess COVID-19 sjúklingar sem fengu lyfið væru líklegri til að fá hjartsláttartruflanir og líklegri til að deyja af völdum COVID-19.

Þess ber að geta að í þeirri rannsókn voru áhrif lyfsins greind á tæp­lega 15 þúsund sjúk­linga og á­hrif þess borin saman við hóp 81 þúsund sjúk­linga sem tóku lyfið ekki, sem er margfalt stærri hópur en fylgst var með í nýju rannsókninni.

Þess ber að geta að heildartala sjúklinga sem fylgst var með í þeirri rannsókn var fylgst var með mun fleiri

Fengu lyfið snemma

Í kjölfarið gaf Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) út að hún væri hætt þátttöku í rannsóknum þar sem malaríulyfið væri notað. Þá hafa mörg ríki bannað notkun þess til meðferðar á COVID-19.

Stofnunin mælir nú ekki með notkun lyfsins við COVID-19 nema í klínískum rannsóknum með ströngum skilyrðum og undir góðu eftirliti.

WHO sagðist um leið áskilja sér þann rétt að endurskoða þá ákvörðun þegar frekari niðurstöður rannsókna lægju fyrir.

Áðurnefndur Zervos sagði í samtali við CNN að fylgst hafi verið vel með hjartaheilsu sjúklinga í nýju rannsókninni.

Hann telur líklegt að misræmið í rannsóknarniðurstöðum skýrist af því að sjúklingar á sjúkrahúsum Henry Ford Health System hafi fengið lyfið fyrr en víða annars staðar, áður en þeir fóru að sýna alvarleg bólguviðbrögð sem geti fylgt COVID-19.