Á umhverfisfundi Sameinuðu þjóðanna í Naíróbí fyrir skömmu lýstu nokkrir fulltrúar pirringi yfir að Evrópubúar virðast lamaðir vegna stríðsins í Evrópu, á meðan þróunarlönd sem búa oft við átök í sínu nærumhverfi ná að halda áfram alþjóðlegu umhverfissamstarfi. Nokkrum alþjóðlegum leiðtogafundum Sameinuðu þjóðanna hefur verið frestað vegna stríðsins, til dæmis um nýja sáttmála um líffræðilegan fjölbreytileika og gegn plasti í hafinu.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir alvarlegt mál að innrásin í Úkraínu hafi haft neikvæð áhrif á vonir mannkyns um mikilvægar mótvægisaðgerðir til varnar hnattrænni hlýnun.
„Fyrir nokkrum mánuðum ákvað ESB að gas væri „græn orka“ til bráðabirgða. Það breyttist snarlega þegar Rússar réðust inn í Úkraínu,“ segir Árni.
Í Þýskalandi og fleiri ríkjum er nú talað um að dusta rykið af mjög mengandi kolaorkuverum sem verða að óbreyttu gangsett í haust eftir að hafa staðið lokuð um skeið. Rússneskt gas streymir í minna mæli um heimsbyggðina en áður og framleiðsla á endurnýjanlegri orku virðist ekki næg til að Vesturlönd telji sig geta plumað sig án rússneska gassins þótt minna sé keypt en fyrir innrás.
„Afleiðingin er að þessi ríki eru háð stríðsherra sem fremur hvert glæpaverkið á eftir öðru“
„Ekki er gott að segja hversu langan tíma tekur fyrir Evrópu, ekki síst Þýskaland, að auka framleiðslu á endurnýjanlegri orku til að bæta upp mikið magn olíu og gass frá Rússlandi og komast hjá að fjármagna stríðið gegn Úkraínu,“ segir Árni.
„En það er sannarlega pínlegt að sú stefna Angelu Merkel að eiga uppbyggileg samskipti við Pútín reynist byggð á sandi. Sömuleiðis pínlegt fyrir Mercedes Benz, BMW og Volkswagen, sem eru enn á eftir Tesla í hönnun og framleiðslu á rafknúnum bílum.“
Árni segir ástandið ekki batna við að Greta Thunberg bendi stöðugt á að ríkisstjórnir Vesturlanda segi eitt og geri annað.
„Afleiðingin er að þessi ríki eru háð stríðsherra sem fremur hvert glæpaverkið á eftir öðru,“ segir Árni og á við Pútín.