Húsnæðiskostnaður á Íslandi er nú einn sá allra hæsti í Evrópu, bæði fyrir eigendur og leigjendur, segir í nýrri samantekt forkólfa Eflingar, sem telja nýjar tillögur starfshóps þjóðhagsráðs um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði vera margar ágætar og mikilvægar, en aðrar ófullnægjandi, einkum hvað húsnæðisstuðning varði.

Tillögurnar um húsnæðisstuðning séu skrýddar jákvæðum markmiðum en þær megi heita ófullnægjandi vegna skorts á beinum viðmiðum, segir í samantektinni, en húsaleigubætur og vaxtabætur hafi ekki fylgt verðhækkunum á húsnæði.

Þá hafi vaxtabætur fjarað út um leið og boðið hafi verið upp á skattalækkun vegna nýtingar séreignasparnaðar til íbúðarkaupa sem mest hafi nýst hærri tekjuhópum. Húsnæðisstuðningur stjórnvalda hafi því í reynd verið fluttur frá lágtekjuhópum til tekjuhærri hópa.

Eflingarfólk bendir einnig á að reglum á leigumarkaði sé áfátt, en loforð frá Lífskjarasamningnum 2019 um sterkari samningsstöðu leigjenda og aukna leiguvernd, þar á meðal leiguþak, hafi þegar verið svikin.

Tillögur nefndarinnar um úrbætur á þessu sviði séu of almennt orðaðar og sýni ekki hvernig böndum verði komið á taumlausar verðhækkanir, bæði á leigu og kaupverði íbúðarhúsnæðis.