Finnskir vísindamenn segjast hafa þjálfað hunda sem geti þefað uppi COVID-19 með auðveldum hætti.

Fjórir hundar starfa nú á flugvelli í Helsinki sem hluti af ríkisstyrktu tilraunaverkefni sem vonast er til að muni leiða til þess að fleiri hundar muni gegna þessu hlutverki í náinni framtíð.

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum hefur hundunum tekist að greina veiruna með nærri 100% vissu, jafnvel dögum áður en sjúklingur fór að sýna einkenni.

Greina COVID-19 á tíu sekúndum

Gæti aðferðin því reynst ódýr, skjót og áhrifaríki leið til að skima fólk fyrir kórónaveirunni en hundarnir eru sagðir geta greint lyktina af COVID-19 á innan við tíu sekúndum.

Ferlið fer þannig fram að komufarþegar á flugvellinum eru beðnir um að strjúka hálsinn á sér með þurrku sem sett er í krukku. Er henni svo komið fyrir í hundabás innan um aðrar krukkur sem geyma ólíka lykt.

Ef hundurinn telur sig hafa fundið COVID-19 er farþeginn beðinn um að fara í hefðbundið PCR skimunarpróf sér að endurgjaldslausu.

Anna Hielm-Björkman, sem hefur yfirumsjón með tilraunaverkefninu, segir niðurstöðurnar lofa mjög góðu. Ef allt gangi eftir gæti slíkir hundar nýst til að skima fyrir veirunni á spítölum, hjúkrunarheimilum og á íþrótta- og menningarviðburðum.