Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) lýsir yfir þungum áhyggjum af fjármögnun Háskóla Íslands í ljósi umræðna um fjárlög á þingi og gagnrýnir harðlega beiðni háskólayfirvalda um hækkun skrásetningargjaldsins í 95.000 kr. í kjölfar þeirra.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá SHÍ sem send var út í gær. Þar er enn fremur bent á að fjármögnun háskólanna standi langt að baki fjármögnun háskóla á öðrum Norðurlöndum þar sem opinber háskólamenntun er gjaldfrjáls eða gjöld hófleg.
„Heildartekjur Háskóla Íslands árið 2019 voru 2,9 milljónir á ársnema á meðan meðaltalið á Norðurlöndunum er 4,2 milljónir á hvern ársnema. Það hefur ítrekað verið bent á fjárþörf háskólastigsins og að brýnt sé að útdeiling fjármuna til Háskóla Íslands taki mið af raunverulegu landslagi háskólastigsins þannig að rekstrargrundvöllur þeirra sé tryggður,“ segir í yfirlýsingunni og þess krafist að bæði háskólayfirvöld og stjórnvöld hætti að reyna að fegra sannleikann um það hvernig fjármögnum opinberrar háskólamenntunar á Íslandi er háttað.
SHÍ segir enga tilviljun að háskólayfirvöld óski eftir hækkun skrásetningargjalda í kjölfar umræðu á þingi um fjárlög og þeim niðurskurði sem þar er boðaður til háskólans.
„Byrðinni af fjármögnun opinberrar háskólamenntunar er velt beint yfir á stúdenta vegna þess að stjórnvöld sinna ekki lögbundinni skyldu sinni til þess að halda uppi grunnstarfsemi háskólanna með nægilegri fjárveitingu á fjárlögum. Beiðni um hækkun gjaldsins nú er ekkert annað en örvæntingarfull tilraun háskólayfirvalda til þess að plástra blæðandi sár, enda yrði hækkun gjaldsins aðeins dropi í hafið fyrir háskólann miðað við það fjármagn sem upp á vantar, en myndi aftur á móti hafa mikil áhrif á stúdenta,“ segir í yfirlýsingunni og að SHÍ leggist gegn hvers kyns áformum um hækkun gjaldsins sem þau telja þegar of hátt.
Þau segja að verði það enn hærra geti það skert aðgengi að menntun auk þess sem það mun skerða mánaðarlega framfærslu námsmanna en skrásetningargjaldið, verði það hækkað, mun þá samsvara 90 prósent af grunnframfærslu eins mánaðar frá Menntasjóði námsmanna.
„Hækkun skrásetningargjaldsins yrði gríðarlega íþyngjandi fyrir stúdenta og væri aðeins skammtímalausn sem myndi hafa í för með sér fleiri vandamál en hún myndi leysa. Það þarf að ráðast tafarlaust á rót vandans, sem er fjármögnun opinberrar háskólamenntunar hér á landi, eða réttara sagt skortur á henni. Stúdentaráð krefst þess að stjórnvöld sinni lögbundnum skyldum sínum um fjármögnun opinberrar háskólamenntunar í stað þess að velta byrðinni yfir á stúdenta.“