Stúdenta­ráð Há­skóla Ís­lands (SHÍ) lýsir yfir þungum á­hyggjum af fjár­mögnun Há­skóla Ís­lands í ljósi um­ræðna um fjár­lög á þingi og gagn­rýnir harð­lega beiðni há­skóla­yfir­valda um hækkun skrá­setningar­gjaldsins í 95.000 kr. í kjöl­far þeirra.

Þetta kemur fram í yfir­lýsingu frá SHÍ sem send var út í gær. Þar er enn fremur bent á að fjár­mögnun há­skólanna standi langt að baki fjár­mögnun há­skóla á öðrum Norður­löndum þar sem opin­ber há­skóla­menntun er gjald­frjáls eða gjöld hóf­leg.

„Heildar­tekjur Há­skóla Ís­lands árið 2019 voru 2,9 milljónir á árs­nema á meðan meðal­talið á Norður­löndunum er 4,2 milljónir á hvern árs­nema. Það hefur í­trekað verið bent á fjár­þörf há­skóla­stigsins og að brýnt sé að út­deiling fjár­muna til Há­skóla Ís­lands taki mið af raun­veru­legu lands­lagi há­skóla­stigsins þannig að rekstrar­grund­völlur þeirra sé tryggður,“ segir í yfir­lýsingunni og þess krafist að bæði há­skóla­yfir­völd og stjórn­völd hætti að reyna að fegra sann­leikann um það hvernig fjár­mögnum opin­berrar há­skóla­menntunar á Ís­landi er háttað.

SHÍ segir enga til­viljun að há­skóla­yfir­völd óski eftir hækkun skrá­setningar­gjalda í kjöl­far um­ræðu á þingi um fjár­lög og þeim niður­skurði sem þar er boðaður til há­skólans.

„Byrðinni af fjár­mögnun opin­berrar há­skóla­menntunar er velt beint yfir á stúdenta vegna þess að stjórn­völd sinna ekki lög­bundinni skyldu sinni til þess að halda uppi grunn­starf­semi há­skólanna með nægi­legri fjár­veitingu á fjár­lögum. Beiðni um hækkun gjaldsins nú er ekkert annað en ör­væntingar­full til­raun há­skóla­yfir­valda til þess að plástra blæðandi sár, enda yrði hækkun gjaldsins að­eins dropi í hafið fyrir há­skólann miðað við það fjár­magn sem upp á vantar, en myndi aftur á móti hafa mikil á­hrif á stúdenta,“ segir í yfir­lýsingunni og að SHÍ leggist gegn hvers kyns á­formum um hækkun gjaldsins sem þau telja þegar of hátt.

Þau segja að verði það enn hærra geti það skert að­gengi að menntun auk þess sem það mun skerða mánaðar­lega fram­færslu náms­manna en skrá­setningar­gjaldið, verði það hækkað, mun þá sam­svara 90 prósent af grunn­fram­færslu eins mánaðar frá Mennta­sjóði náms­manna.

„Hækkun skrá­setningar­gjaldsins yrði gríðar­lega í­þyngjandi fyrir stúdenta og væri að­eins skamm­tíma­lausn sem myndi hafa í för með sér fleiri vanda­mál en hún myndi leysa. Það þarf að ráðast tafar­laust á rót vandans, sem er fjár­mögnun opin­berrar há­skóla­menntunar hér á landi, eða réttara sagt skortur á henni. Stúdenta­ráð krefst þess að stjórn­völd sinni lög­bundnum skyldum sínum um fjár­mögnun opin­berrar há­skóla­menntunar í stað þess að velta byrðinni yfir á stúdenta.“