Innlent

Segja gólfin í í­þrótta­húsinu hættu­leg og krefjast úr­bóta

Húsfyllir var á íbúafundi í gær þar sem vankantar á íþróttaaðstöðu í Mosfellsbæ voru reifaðir. Á sjöunda tug íþróttamanna skoraði á stjórnmálamenn að skipta um gólf að Varmá.

Húsfyllir var á íbúafundi í gær um íþróttatengd málefni. Á samsettu myndinni hér að ofan er Haraldur bæjarstjóri til vinstri en Ásgeir Jónsson, fyrrverandi handboltamaður, til hægri.

Á íbúafundi í Mosfellsbæ í gær lásu íþróttamenn í blaki og handbolta hjá Aftureldingu upp áskorun, undirritaða af á sjöunda tug meistaraflokksmanna og -kvenna, um að tafarlaust verði ráðist í úrbætur á gólfefnum í íþróttahúsum félagsins að Varmá. Í áskoruninni er fullyrt að gólfin ýti undir stoðkerfisvandamál og álagsmeiðsli hjá íþróttafólki félagsins. Haraldur Sverrisson bæjarstjóri bendir á að úttekt á gólfunum sé á lokametrunum.

„Við leikmenn Aftureldingar sættum okkur ekki við að tekin sé áhætta með líkamlega heilsu okkar. Við óskum eftir að því að gripið verði til aðgerða - ekki seinna en strax,“ segir í áskoruninni sem beint er til frambjóðenda fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í Mosfellsbæ. Fyrrverandi leikmaður félagsins greinir frá því á Facebook að ferli hans hafi lokið langt fyrir aldur fram vegna stoðkerfisvandamála sem rekja megi til aðstöðunnar.

Vel var mætta á fundinn í gær. Iðkendur eru orðnir langþreyttir á slæmum gólfum. Ljósmynd/Aðsend

Á fundinum í gær, sem fram fór í Hlégarði í gær, var farið yfir aðstöðu þeirra íþróttagreina sem stundaðar eru í Aftureldingu. Íþróttadeildirnar eru tíu talsins og um 100 þjálfarar og starfsmenn starfa hjá Aftureldingu. Iðkendur eru tæplega 1.400 talsins.

Í stuttu máli má segja að það sé mat deildanna að endurnýja þurfi gólfefni á báðum íþróttasölunum að Varmá og snar fjölga búningsklefum. Félagsaðstöðu íþróttadeilda Aftureldingar er mjög ábótavant.

Krossbandaslit og tognanir

Leikmennirnir lýsa yfir þungum áhyggjum af því að allt bendi til þess að þeir þurfi áfram að æfa og keppa á gólfum sem séu „beinlínis hættuleg“. „Meiðsli hafa verið mjög algeng hjá meistaraflokkum félagsins í þessum keppnisgreinum á undanförnum árum þar sem við höfum misst marga leikmenn í alvarleg meiðsli sem við teljum að megi rekja til slæms undirlags. Dæmi um meiðsli eru krossbandsslit, rifnir vöðvar i kálfa, slæmar tognanir auk þess sem leikmenn hafa fundið fyrir álagsmeiðslum í hnjám og baki.“

Gólfið þar sem handboltaliðin keppa er um 20 ára gamalt. Handknattleiksdeildin vill skipta yfir á parket.

Fram kemur að Afturelding sé eina liðið í efstu deild karla í handbolta sem leiki enn á dúk. Dúk sem sé 20 ára gamall. „Leikmenn hafna að ganga til liðs við Aftureldingu vegna þess að þeim hugnast ekki að æfa og leika hér að Varmá. Það dregur sannarlega úr samkeppnisfærni Aftureldingar gagnvart bestu félögum landsins.“ Þá kemur fram að blakdeildin leiki einnig á dúk, í gamla íþróttasalnum. Þar sé um að ræða dúk sem lagður var beint ofan á steypu. 

Kyrrstaða í þrjú ár

Vísað er í bréf sem deildinni barst frá Blaksambandi Íslands árið 2015, þar sem segir að ekki verði öllu lengur unað við þá aðstöðu sem blakdeildin bjóði upp á. „Félagið hefur fengið undanþágu vegna þessa nú í nokkur ár en aðstaðan er ekki boðleg og þarf Blaksambandið alvarlega að íhuga hvort hægt verði að úthluta mótum til Aftureldingar eða samþykkja að keppt verði í húsinu við óbreyttar aðstæður.“

Fram kemur að ekkert hafi gerst á þessum þremur árum, þrátt fyrir ítrekaðar óskir um að framkvæmd verði úttekt á gólfinu. Óásættanlegt sé að bjóða afreksfólki í íþróttum upp á þessar aðstæður. „Það eru orðin of mörg dæmi um frábæra íþróttamenn sem hafa þurft að leggja skóna alltof snemma á hilluna vegna meiðsla sem rekja má til vandamála sem hér er lýst.“

Aðstaðan sem bladeildin býr við hefur verið á undanþágu undanfarin ár. Ljósmynd/Aðsend

Handknattleiksþjálfarinn Ásgeir Jónsson, sem lék mest allan sinn feril með Aftureldingu, greinir frá því á Facebook að ferli hans hafi lokið langt fyrir aldur fram vegna gólfsins á gamla salnum. Þar sé plastdúkur lagður beint á steinsteypu. Það sé fullkomlega galið. „Við vissum ekki betur þá, en við vitum það núna. Með því að skipta ekki um gólf er Mosfellsbær að segja; við erum til í að taka áhættu.  Áhættu um að x-hluti iðkenda þrói með sér álagsmeiðsli, að x-hluti iðkenda kosti samfélagið himinháar upphæðir í heilbrigðiskostnað og vinnutapi vegna meiðsla sem hefði verið hægt að draga úr líkum á. Til hvers? Til að spara nokkrar krónur? Í því felst auðvitað enginn sparnaður heldur samfélagslegt tap, fyrir utan brostna drauma.“

Hann segir að gólfið í nýja salnum sé jafn hættulegt. Dúkur hafi þar verið lagður á grind sem engin fjöðrun sé í lengur. Dúkurinn sé eins og svell. „Fyrir utan þann líkamlega skaða sem ég beið persónulega við að æfa og keppa á þessum gólfum hef ég horft á menn slíta krossbönd í báðum sölum, út af þessum aðstæðum.“


Haraldur var á meðal þeirr sem voru á pallborði á fundinum í gær. Ljósmynd/Aðsend

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segir við Fréttablaðið að VSÓ Ráðgjöf sé á lokametrunum með úttekt á öllum gólfum í íþróttahúsinu að Varmá. Hún eigi að vera tilbúin fyrir mánaðamótin. „Þá liggur fyrir hvort gólfunum sé ábótavant,“ segir hann.

Hann segir að ekki muni standa á bænum ef úttektin leiði í ljós að gólfin standist ekki skoðun. Spurður hvort ekki sé rétt að taka mark á íþróttamönnum félagsins, sem beri að gólfin séu hættuleg, svarar Haraldur því til að auðvitað sé íþróttafólkið besti mælikvarðinn í sjálfu sér. Fólkið sem noti gólfin dags daglega. „En við erum að höndla með almannafé og til að taka svona ákvarðanir þurfa að liggja fyrir álit sérfræðinga. Við þurfum að geta rökstutt og réttlætt það hvers vegna við gerum hlutina, byggt á faglegum sjónarmiðum.“ Hann bendir á að fleiri sveitarfélög, svo sem Seltjarnarnes og Kópavogur hafi ráðist í sambærilegar úttektir.


Haraldur segir að bærinn verði að fara að áliti sérfræðinga. Fréttablaðið/Eyþór

Haraldur segir að málið hafi ef til vill tekið of langan tíma. Engu að síður sé þessi vinna nú á lokametrunum og að eftir niðurstöðinni verði farið. Hann segir hins vegar að ef það sé vilji hjá Aftureldingu til að skipta um gólf, óháð niðurstöðu úttektarinnar, þá þurfi bæjaryfirvöld að setjast niður með félaginu og ræða forgangsröðun framkvæmda – hvar í röðinni stjórn Aftureldingar meti þá framkvæmd.

Haraldur segir að töluverðu fé sé varið á hverju ári til uppbyggingar íþróttaaðstöðu í bænum. Þannig eigi að taka í notkun tvo nýja búningsklefa, svokallaða heita útiklefa, í sumar og í framhaldinu verði klefar sem meistaraflokkarnir í knattspyrnu hafa notað, gerðir upp. Loks sé verið að byggja knatthús á svæðinu. „Það er fullur vilji til að halda uppbyggingu svæðisins áfram, svo sem með nýjum mannvirkjum fyrir búningsklefa og félagsaðstöðu.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Skuldagrunnur á teikniborði eftirlitsins

Innlent

Meirihluti Íslendinga óttast afleiðingar loftslagsbreytinga

Innlent

Kostar 1,3 milljarða að lagfæra fyrir nýja ferju

Auglýsing

Nýjast

Segir fyrirferð RÚV líklega ástæðu úttektar

Handtóku tvo katalónska bæjarstjóra

Dómur í Bitcoin-málinu kveðinn upp í dag

500 milljóna endurbætur vegna húsnæðis mathallar

Ósáttir stóðu vörð um stjórn Theresu May

Tæplega 1.600 um­sagnir um sam­göngu­á­ætlun

Auglýsing