Starfsfólk Flataskóla í Garðabæ sendi á sveitarfélagið ályktun þar sem þau fara fram á að fá upplýsingar um myglu í húsnæði skólans ásamt því að krefjast þess að fá aðgang að skýrslu um skólann frá 2019 sem hefur ekki verið gerð opinber.

Í ályktunni sem Fréttablaðið hefur undir höndunum kemur fram að þau viti að í skýrslunni sem var gerð árið 2019 komi fram að það hafi verið mygluummerki víðsvegar um skólann.

Í kjölfarið veltir starfsfólkið fyrir sér hver ástæðan fyrir því að Garðabær hafi búið yfir upplýsingum um þetta í 3-4 ár en haldið því leyndu fyrir nemendur, aðstandendum og starfsmönnum.

Þar að auki hafi bæjarstjóri lofað starfsfólki Flataskóla góðu upplýsingastreymi til starfsfólks þegar hann fundaði með þeim í byrjun desember síðastliðnum en því hafi ekki verið framfylgt.

Síðastliðnar vikur hafi loftplötur hrunið úr lofti og vatn flætt inn og það sé aðeins heppni að þakka að hvorki börn né starfsfólk hafi hlotið skaða af.