Borgarráð samþykkti í síðustu viku að skipa nefnd óháðra sérfræðinga til að gera heildstæða athugun á starfsemi vöggustofa í Reykjavík á síðustu öld. Þrír fimmmenninganna, sem fara fyrir stuðningshópnum Réttlæti, segja áætlun borgarinnar í málinu ófullnægjandi í opnu bréfi til borgaryfirvalda sem birt er í Fréttablaðinu.
„Þau markmið sem Borgarráð kynnti sem grundvöll rannsóknar, sem nefnd er athugun, á starfsemi vöggustofa borgarinnar eru að mati Réttlætis öldungis ófullnægjandi. Raunar verður alls ekki séð að „athugun“ sem grundvallast á uppgefnum markmiðum skili niðurstöðum sem mestu máli skipta,“ segir í bréfinu sem er undirritað af þeim Árna H. Kristjánssyni, Hrafni Jökulssyni og Viðari Eggertssyni.
Kollegarnir fögnuðu því í síðustu viku að borgin skyldi taka þetta fyrsta formlega skref í átt að rannsókn á málinu og sagði Árni á Facebook síðu Réttlætis „Stór áfangi í höfn!“ Nú er þó ljóst að þeim þykir borgin alls ekki ganga nógu langt í áætlun sinni en í bréfinu er markmiðum borgaryfirvalda lýst sem illa skilgreindum og ómarkvissum.
Árni, Hrafn og Viðar nefna fimm meginspurningar sem fyrirhuguð athugun Reykjavíkurborgar þurfi að svara:
- Hverjar voru ástæður þess að börn voru vistuð á vöggustofum borgarinnar?
- Hver var ástæða þess að stórskaðlegir starfshættir, sem gengu þvert gegn fyrirliggjandi rannsóknum, heilbrigðri skynsemi og mannlegu eðli, voru við lýði á vöggustofum borgarinnar?
- Hvernig þrifust börn á meðan þau voru vistuð á vöggustofum borgarinnar?
- Hversu mörg börn létust á vöggustofum borgarinnar og hver var dánarorsökin?
- Hvað varð um börn sem vistuð voru á vöggustofum borgarinnar og hvernig vegnaði þeim í lífinu?
Algjört skilningsleysi á vöggustofum
Viðar Eggertsson, sem vistaður var á vöggustofu á unga aldri, sagði í samtali við Fréttablaðið í síðustu viku að nauðsynlegt væri að rannsaka afdrif barnanna sem dvöldu á vöggustofum en ekki bara starfsemi vöggustofanna.
„Það er gríðarlega mikilvægt,“ sagði hann og velti því fyrir sér hvaða veganesti fólkið sem var vistað á vöggustofum hafi tekið með sér út í lífið eftir meðferðina.
Í bréfi borgarstjóra sem lagt var fram með bókun Borgarráðs síðasta fimmtudag er tekið fram að eitt af markmiðum borgarinnar fyrir athugunina sé að „leitast við að staðreyna eins og kostur er hvort og þá í hvaða mæli börn sem vistuð voru á stofnuninni hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi meðan á dvölinni stóð.“
Árni, Hrafn og Viðar segja þetta markmið bera með sér „algjört skilningsleysi“ á eðli og starfsháttum vöggustofa borgarinnar.
„Það er óumdeild staðreynd, studd með mörgum rannsóknum, að starfshættir þeir sem tíðkuðust á vöggustofum borgarinnar buðu ekki upp á annað en skaðlega og illa meðferð á öllum börnum sem þar voru vistuð. Þetta atriði er útgangspunktur og þarf því ekki að rannsaka sérstaklega.“
Bréf þeirra Árna, Hrafns og Viðars má lesa í heild sinni á skoðanavef Fréttablaðsins.