Borgar­ráð sam­þykkti í síðustu viku að skipa nefnd ó­háðra sér­fræðinga til að gera heild­stæða at­hugun á starf­semi vöggu­stofa í Reykja­vík á síðustu öld. Þrír fimm­menninganna, sem fara fyrir stuðnings­hópnum Rétt­læti, segja á­ætlun borgarinnar í málinu ó­full­nægjandi í opnu bréfi til borgar­yfir­valda sem birt er í Frétta­blaðinu.

„Þau mark­mið sem Borgar­ráð kynnti sem grund­völl rann­sóknar, sem nefnd er at­hugun, á starf­semi vöggu­stofa borgarinnar eru að mati Rétt­lætis öldungis ó­full­nægjandi. Raunar verður alls ekki séð að „at­hugun“ sem grund­vallast á upp­gefnum mark­miðum skili niður­stöðum sem mestu máli skipta,“ segir í bréfinu sem er undir­ritað af þeim Árna H. Kristjáns­syni, Hrafni Jökuls­syni og Viðari Eggerts­syni.

Kollegarnir fögnuðu því í síðustu viku að borgin skyldi taka þetta fyrsta form­lega skref í átt að rann­sókn á málinu og sagði Árni á Face­book síðu Rétt­lætis „Stór á­fangi í höfn!“ Nú er þó ljóst að þeim þykir borgin alls ekki ganga nógu langt í á­ætlun sinni en í bréfinu er mark­miðum borgar­yfir­valda lýst sem illa skil­greindum og ó­mark­vissum.

Árni, Hrafn og Viðar nefna fimm megins­purningar sem fyrir­huguð at­hugun Reykja­víkur­borgar þurfi að svara:

  1. Hverjar voru á­stæður þess að börn voru vistuð á vöggu­stofum borgarinnar?
  2. Hver var á­stæða þess að stór­skað­legir starfs­hættir, sem gengu þvert gegn fyrir­liggjandi rann­sóknum, heil­brigðri skyn­semi og mann­legu eðli, voru við lýði á vöggu­stofum borgarinnar?
  3. Hvernig þrifust börn á meðan þau voru vistuð á vöggu­stofum borgarinnar?
  4. Hversu mörg börn létust á vöggu­stofum borgarinnar og hver var dánar­or­sökin?
  5. Hvað varð um börn sem vistuð voru á vöggu­stofum borgarinnar og hvernig vegnaði þeim í lífinu?

Al­gjört skilnings­leysi á vöggu­stofum

Viðar Eggerts­son, sem vistaður var á vöggu­stofu á unga aldri, sagði í sam­tali við Frétta­blaðið í síðustu viku að nauð­syn­legt væri að rann­saka af­drif barnanna sem dvöldu á vöggu­stofum en ekki bara starf­semi vöggu­stofanna.

„Það er gríðar­lega mikil­vægt,“ sagði hann og velti því fyrir sér hvaða vega­nesti fólkið sem var vistað á vöggu­stofum hafi tekið með sér út í lífið eftir með­ferðina.

Í bréfi borgar­stjóra sem lagt var fram með bókun Borgar­ráðs síðasta fimmtu­dag er tekið fram að eitt af mark­miðum borgarinnar fyrir at­hugunina sé að „leitast við að stað­reyna eins og kostur er hvort og þá í hvaða mæli börn sem vistuð voru á stofnuninni hafi sætt illri með­ferð eða of­beldi meðan á dvölinni stóð.“

Árni, Hrafn og Viðar segja þetta mark­mið bera með sér „al­gjört skilnings­leysi“ á eðli og starfs­háttum vöggu­stofa borgarinnar.

„Það er ó­um­deild stað­reynd, studd með mörgum rann­sóknum, að starfs­hættir þeir sem tíðkuðust á vöggu­stofum borgarinnar buðu ekki upp á annað en skað­lega og illa með­ferð á öllum börnum sem þar voru vistuð. Þetta at­riði er út­gangs­punktur og þarf því ekki að rann­saka sér­stak­lega.“

Bréf þeirra Árna, Hrafns og Viðars má lesa í heild sinni á skoðana­vef Frétta­blaðsins.