Íbúar Vetrargarða við Eggertsgötu 6-10, alls 62 manns, hafa sent bréf til Jón Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, til að biðja um hjálp eftir árangurslaust samtal við Félagsstofnun stúdenta. Segir hópurinn, sem samanstendur af um 40 fjölskyldum, að FS hafi beitt hræðslutaktík í því skyni að þvinga íbúa til að samþykkja milliflutning sem fyrst. Tölvupóstum frá íbúum hefur ekki verið svarað og tilraunir til þess að óska eftir endurbótum á skilmálum milliflutninga hafa verið hunsaðar að sögn íbúa.

Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá hefur fjölskyldum sem búa í Vetrargörðum verið gert að flytja út innan mánaðar vegna fyrirhugaðra framkvæmda, sem ekki var greint frá í framkvæmdaáætlun. Ekki verður veittur leigafsláttur vegna flutninga eða framkvæmda og neyðast flestir til að flytja í annað hvort minni íbúðir eða dýrari íbúðir.

Íbúar hafa mótmælt þessu og eftir að málið komst í fjölmiðla áréttaði FS að engum íbúum Vetrargarða yrði gert að flytja úr núverandi íbúð á meðan samningur er í gildi. „Hins vegar hvetjum við íbúa til að þiggja flutning og teljum ákjósanlegast að það sé fyrr en síðar þar sem ónæði verður óhjákvæmilegt í áfanganum sem verður í upptekt,“ segir í tölvupósti sem FS sendi á íbúa Vetrargarða.

Íbúar telja þetta afarkosti: „Samkvæmt ykkur, höfum við tvo valkosti: að flytja út (á næstu vikum!) með þeim kostnaði, umstangi, álagi og almennri röskun á líf sem það fylgir - eða þola gríðarlegan hávaða og annars konar ónæði sem framkvæmdum alla daga. Þetta eru afarkostir,“ skrifaði Andrea Diljá Edvinsdóttir, íbúi í Vetrargörðum, í tölvupósti til FS í lok janúar. Eftir ótalmörg samtöl sjá íbúar sig knúna til að leita til rektors.

„Þegar öllu er á botninn hvolft er Félagsstofnun stúdenta að þvinga barnafjölskyldur til þess að flytja á miðri önn, án fyrirvara, málsbóta og tilrauna til samstarfs.“

Eins og þruma úr heiðskíru lofti

„FS hefur frá því tilkynningin barst ekki aðeins neitað að koma til móts við íbúa á nokkurn hátt, heldur hafa enn fremur gripið til hræðslutaktíka—hvort sem það er viljandi gert eður ei—í því skyni að þvinga íbúa til þess að samþykkja milliflutning sem fyrst. Þá hafa þungar áhyggjur íbúa vegna mikilla óþæginda og raski á lífi okkar sem þessari skyndiákvörðun fylgja verið virtar að vettugi og ekki hlotið hljómgrunn hjá FS. Í ljósi þessa leitum við til þín,“ segir í bréfi til rektors.

Íbúarnir segjast skilja sjónarmið FS, um að skyndileg ákvörðun hafi verið tekin um endurbætur á húsnæðinu vegna svigrúms sem hafi skapast til milliflutninga á Skógargarða vegna minni eftirspurnar eftir stúdentaíbúðum en búist var við, en á sama tíma geti þau ómögulega sætt sig við „fullkomið skilningsleysi FS á því alvarlega raski á lífi íbúa“. Mörg þeirra séu nú þegar undir gríðarlegu álagi vegna áhrifa heimsfaraldurs. Yfirvofandi útburður íbúa dynur ekki aðeins yfir á þessum óreiðutímum, heldur berst tilkynningin á miðri önn, eins og þruma úr heiðskíru lofti að sögn íbúa.

„Í ljósi þessa leitum við á náðir þínar, kæri rektor. Vilt þú hjálpa okkur?“

Aðgerðirnar bitna á börnunum

Íbuum barst fyrsta tilkynning um yfirvofandi framkvæmdir þann 28. janúar, örfáum dögum áður en sumar fjölskyldur höfðu flutt inn. FS sagði í bréfi til íbúa að undirbúnigsvinna muni hefjast í mars og „af fullum

krafti“ um miðjan maí. Allir íbúar Vetrargarða eru með tímabundna leigusamninga sem renna út þann 10. ágúst nk. en vegna framkvæmdanna eru íbúar „hvattir“ til þess að flytja sem allra fyrst. Líkt og áður hefur komið fram neyðast íbúar til að flytja í smærri íbúðir, dýrari íbúðir eða íbúðir í öðru hverfi, þar sem það er hvergi nærri nægt framboð sambærilegra íbúða fyrir alla íbúa.

„Við teljum þetta tilboð FS vera óásættanlegt. Héðan vill enginn flytja. Í öllum íbúðum Vetrargarða búa börn. Börnin okkar sækja leikskóla, grunnskóla og tómstundir í hverfinu og því ljóst að aðgerðir FS bitna ekki síst á börnunum sem hafa nú þegar orðið fyrir miklu raski í kjölfar heimsfaraldurs,“ segja íbúar og ítreka að þeir búast við sanngjörnum kjörum og telja það skýlaust brot á samningum að þurfa ða greiða hhærri leigu eða að minnka verulega við sig.

„Þegar öllu er á botninn hvolft er Félagsstofnun stúdenta að þvinga barnafjölskyldur til þess að flytja á miðri önn, án fyrirvara, málsbóta og tilrauna til samstarfs. Stofnunin virðist að vísu vera ósammála þeirri túlkun íbúa á aðgerðunum þar sem íbúum sé „velkomið“ að búa hér áfram –en munu þá búa á vinnusvæði stórframkvæmda. FS býður íbúum að búa á Vetrargörðum þar til í ágúst en hafa lagt áherslu á að leigusamningar verði ekki endurnýjaðir og að ómögulegt sé að tryggja okkur sambærilegt húsnæði á sambærilegu verði, bæði nú og þá. Það sé því í okkar hag að samþykkja tilboð þeirra um milliflutning í smærri eða dýrari íbúð sem fyrst. Í raun hafa þeir gefið okkur frest til 7. febrúar til þess að svara þessu tilboði. Það er einungis 10 daga svigrúm frá því fyrsta tilkynning um yfirvofandi framkvæmdir barst. Í augum okkar eru þetta afarkostir.“

Í lok bréfsins biðla 62 íbúar til rektors um að veita þeim hjálp. „Í ljósi þessa leitum við á náðir þínar, kæri rektor. Vilt þú hjálpa okkur?“