Verði frumvarp heilbrigðisráðherra um rafrettur að lögum er verið að styrkja stöðu sígarettunnar á Íslandi. Þetta er samdóma álit Guðmundar Karls Snæbjörnssonar læknis og Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda. Báðir gagnrýna þau ströngu skilyrði sem í frumvarpinu eru sett fyrir sölu rafretta, kvaðir um merkingar og hömlur á að auglýsa retturnar.

Sjá einnig: Svandís vill lögleiða rafettur

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga sem heimilar sölu á rafrettum, eða veipum. Markmið frumvarpsins er að tryggja gæði og öryggi rafrettna og áfyllinga fyrir rafrettur á markaði. Í því er að finna ströng skilyrði um merkingar á rafrettum, sambærilegar við þær sem eru á tóbaksvörum, bann við markaðssetningu og reglur um notkun rafretta í almannarýmum, svo sem í stofnunum og fyrirtækjum.

Meðhöndlað eins og tóbaksreykingar

Ólafur segir að eina jákvæða breytingin á frumvarpinu, frá þeim drögum sem kynnt voru í fyrra, sé að nú eigi að setja sérlög um rafrettur en ekki fella þau undir tóbaksvarnarlög. Hann bendir hins vegar á að með frumvarpinu sé lagt til að gengið sé um rafrettur eins og tóbaksreykingar.

Ólafur segir að miklu lengra sé gengið hvað varðar inngrip í viðskipta- og athafnafrelsi en efni standi til. „Það vantar rökstuðning fyrir þessum inngripum. Það er vitnað til tilmæla frá WHO (Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar) um að það eigi að setja hömlur á notkun rafrettna þar til í ljós komi hvort þær séu skaðlausar,“ segir Ólafur og segir að þessu væru betur farið öfugt. Verið sé að gefa varasamt fordæmi.

Frumvarp Svandísar má sjá hér.

Verslanir fullar af hættulegum vörum

Hann bendir á að verslanir landsins séu fullar af vörum sem séu hættulegar ef fólk noti þær ekki rétt eða noti þær í óhófi, án þess að það bannað sé að hafa þær sýninlegar eða auglýsa. „Af hverju má ekki auglýsa rafrettur eins og nikótíntyggjó? Hvernig á neytandinn annars að fá upplýsingar um vöruna og notkun hennar?“ spyr Ólafur.

Honum finnst löggjafinn vera að ganga of langt á grundvelli takmarkaðrar vísindalegrar þekkingar. Hann bendir á að sumir telji þráðlaus net og farsíma hættuleg heilsu okkar, þó engar vísindalegar forsendur séu að baki þeim ótta. „Ætti að hamla þeirri tækni þess vegna?“ spyr hann.

Hindrar fólk í að bjarga sér frá reykingum

Guðmundur Karl Snæbjörnsson læknir segir að með frumvarpinu sé verið að senda röng skilaboð út í þjóðfélagið. Verið sé að ala á hræðslu sem eigi sér enga vísindalega stoð. Þrátt fyrir þúsundir rannsókna á rafrettum síðastliðinn áratug hafi ekki verið sýnt fram á skaðsemi þeirra. „Þetta frumvarp kemur til með að drepa fremur en að bjarga einhverjum,“ segir hann og viðurkennir að hann taki sterkt til orða. „Það er verið að hindra fólk í að geta bjargað sér frá reykingum. Tveir þriðju hlutar þeirra sem reykja stytta með reykingunum lífaldur sinn,“ segir hann.

Hann segir að það sé fullkomlega óásættanlegt að ganga svona fram gegn tóli sem hafi hjálpað 7,5 milljónum manna í Evrópu að hætta tóbaksreykingum. Það sé beinlínis brot á stjórnarskrá að torvelda fólki að leita sér skaðaminnkandi fyrirbæris. Hann bendir líka á að samkvæmt tölum frá ÁTVR hafi sala á sígarettum minnkað um 50% á tímabilinu 2008 til 2017. „Ekkert í líkingu við þetta hefur gerst áður,“ segir hann.

Í frumvarpinu er kveðið á um að fangar þurfi sérstakt leyfi frá forstöðumanni viðkomandi fangelsis til að fá að nota rafrettur í klefa. Hann segir að níu af hverjum tíu föngum reyki og þetta sé brot á réttindum þessa viðkvæma hóps. Loks nefnir hann að í frumvarpinu (8. grein) sé ákvæði sem banni í rafrettuvökva efni sem auðveldi innöndun eða upptöku nikótíns. Á sama tíma innihaldi sígarettur slík efni.   

Ekkert lyf til með minni aukaverkanir

Ísland státar, að sögn Guðmundar, nú að lægsta hlutfalli ungmenna sem reyki í hinum vestræna heimi. Hlutfallið sé 2% en þeir sem noti rafrettur séu 5,2%. „Ef þú veist um eitthvað lyf sem hefur færri eða minni aukaverkanir en rafrettur, þá skaltu láta mig vita. Það er ekki til.“ Hann bendir á að enn deyi nokkur hundruð Íslendingar árlega vegna tóbaksreykinga.

Guðmundur segir það mýtu að börn sem aldrei hafi reykt tóbak taki upp á því að veipa að staðaldri. Það sýnir bæði breskar og bandarískar rannsóknir. Hlutfallið þeirra sem aldrei hafi reykt og fari að nota rafretttur reglulega sé um 0,1% ungmenna.

Gufan skaðlaus

Engin vísindaleg rök liggja að mati Guðmundar að baki þeim takmörkunum á stærðum sölueininga sem frumvarpið kveður á um. Þá séu heldur engin vísindaleg rök að baki því að sækja þurfi um leyfi til að flytja inn rafrettuvökva með sex mánaða fyrirvara. Efni sem komi frá innri markaði Evrópusambandsins. Hann undrast líka að svo strangar reglur eigi að setja um rafrettunotkun í opnum rýmum þar sem gufan af reyknum sé skaðlaus. „Einnig er það  væntanlega brot á tjáningarfrelsinu að banna að segja frá því í auglýsingum og annars staðar hve miklu hættulausara fyrirbærið veipan er samkvæmt rannsóknum.“

Guðmundur segir líka galið, rétt eins og Ólafur, að sömu reglur eigi að gilda um rafrettur og tóbaksreykingar „þar til sýnt hefur verið fram á skaðleysi varanna“ en þar er vísað til tilmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. „Skaði af rafrettum er óþekktur. Það verður enginn skaði. Það er verið að blekkja fólk og senda röng skilaboð. Ef við gefum fólki ekki réttar upplýsingar þá kemur það til með að letja þá sem enn þá reykja að hætta. Við erum að fara á mis við að benda fólki á tól sem það getur notað til að hætta tóbaksreykingum.“

Hann segir það „út í hött“ að setja merkimiða á rafrettur og vökva eins og sígaretturnar, þar sem varað sé við sjúkdómum sem af þeim hljóta. „Slíkt er bara helber lygi og ef einhver vill halda fram skaðleika nikótíns og vara við því svörtum stöfum er hann einfaldlega bara að ljúga.“