Trúnaðarráð stéttarfélagsins Bárunnar fordæmir frumvarp til laga um félagafrelsi á vinnumarkaði, sem var lagt fram af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.

„Trúnaðarráði þykir furðu sæta í byrjun kjarasamningsviðræðna að fá þessa köldu gusu framan í launafólk.“ segir í tilkynningu félagsins um málið sem byggir á fundi ráðsins í gær.

Í yfirlýsingu Bárunnar segir að um sé að ræða neikvætt félagafrelsi, sem myndi neiða stéttarfélög í „félagsmannaveiðar“. Þá segir að myndi frumvarpið ná fram að ganga yrði það það gróf aðför að launafólki, starfsemi stéttarfélaga og vinnumarkaðsmódelinu.

„Báran, stéttarfélag skorar á þingheim að hafna slíkri aðför að launafólki og minnir á að launafólk eru kjósendur þeirra.“ segir í tilkynningunni.

Hafnar því að frumvarpið veiki verkalýðshreyfinguna

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrsti fluttningsmaður frumvarpsins, hafnar því að það muni veikja verkalýðshreyfinguna. Það kom fram í ræðu hans á Alþingi í síðustu viku.

„Ég hafna því, ekki bara vegna þess að ég hef meiri trú en svo á verkalýðshreyfingunni heldur vegna þess að ég er sannfærður um að þetta geti styrkt starfsemi verkalýðsfélaga. Af hverju? Jú, vegna þess að verkalýðsfélögin hafa alveg sérstaka hagsmuni af því að sannfæra launafólk um að hagsmunum þess sé best borgið með því að ganga til liðs við viðkomandi stéttarfélög.“ sagði Óli Björn.

Þá vísaði hann til stjórnarskránnar, en í henni segir að engan megi skylda til aðildar að félagi. „Þrátt fyrir þessi skýru ákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar er félagafrelsi í raun ekki virt á íslenskum vinnumarkaði. Almenn löggjöf takmarkar rétt manna til þess að velja sér félag eða standa utan félags og þar er gengið lengra en í öðrum nágrannaríkjum okkar.“ sagði hann og hélt því fram að vinnumarkaðslöggjöfin væri barn síns tíma og í mörgu úrelt.

Frumvarpið ekki róttæk breyting

Guðrún Haf­steins­dótt­ir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, tjáir sig jafnframt um frumvarpið í grein í Morgunblaðinu í dag. Hún segir það byggja á dönskum lögum frá 2006 og heldur því fram að ekki yrði um róttæka breytingu að ræða.

„Frum­varpið snýr ein­göngu að því að veita launa­fólki á Íslandi sömu rétt­indi og launa­fólki annarra landa og tryggja fé­laga­frels­inu sam­bæri­lega vernd og það nýt­ur ann­ars staðar á Norður­lönd­un­um.“ segir Guðrún.