Árni Hauk­dal Kristjáns­son sem hefur staðið fyrir rann­sókn í vöggu­stofu­málinu í Reykja­vík og í það minnsta þrjár konur sem voru vistaðar á Lauga­landi/Vaprholti hafa skilað inn um­sögnum um frum­varp for­sætis­ráð­herra um sann­girnis­bætur. Um­sagnir þeirra eru allar nei­kvæðar og er for­sætis­ráð­herra kvött til þess að endur­skoða frum­varpið. Frumvarpið er hér.

Árni segir það já­kvætt í frum­varpinu að það muni taka til lengri tíma en lögin gerðu áður og að náð verði utan um fjöl­breyttari og stærri hóp en að utan þess sé ekki hægt að hrósa neinu og að allt annað sé í raun aftur­för og „ís­kaldar kveðjur til vist­heimila­barna“. Hann fer að lokum yfir ýmsar greinar frum­varpsins sem hann segir mikla aftur­för og að ef af verði þá muni færri sækja rétt sinn vegna erfiðra skil­yrða sem eru sett fyrir því.

Þá gerir hann al­var­legar at­huga­semdir við það að fallið sé frá því að ættingjar eða ná­komnir geti sótt réttinn fyrir þolanda.

„Þetta á­kvæði er sorg­legur vitnis­burður um sátta­vilja og sann­girni stjórn­valda enda er það smánar­legt. Eðli málsins sam­kvæmt eru fjöl­margir úr hópi vist­heimila­barna fallnir frá. Sá skaði sem þessi börn urðu fyrir í um­sjón yfir­valda var varan­legur og olli því að fjöl­mörg þeirra misstu fótanna. Stór hluti þessara barna glímdi síðar við slæma líkam­lega heilsu, geð­raskanir og þá var á­fengis- eða fíkni­efna­neysla á­berandi í þessum hópi vegna til­finninga­legs sárs­auka sem reynt var að líkna. Þá hafa sjálfs­víg í þessum hópi verið ó­venju al­geng.

Nokkur þeirra, sér­stak­lega strákarnir, fóru að týna tölunni strax á ung­lings­aldri og nú er svo komið að þeir eru flestir látnir.

Af þessu leiðir að meðal­aldur fyrrum vist­heimila­barna er mun lægri en al­mennt gerist og því eru mörg þeirra fallin frá. Á­byrgð yfir­valda á þessum ó­tíma­bæru dauðs­föllum er ó­um­deild enda báru þau á­byrgð á vel­ferð barnanna á sama tíma og þau voru eyði­lögð. Ég var sjálfur á vist­heimilum meira og minna til 16 ára aldurs. Á þeim tíma tíma kynntist ég fjöl­mörgum börnum sem voru í sömu stöðu. Nokkur þeirra, sér­stak­lega strákarnir, fóru að týna tölunni strax á ung­lings­aldri og nú er svo komið að þeir eru flestir látnir. Sam­kvæmt frum­varpinu skipta hinu látnu engu máli og teljast ekki með enda eiga bætur þeirra að falla dauðar niður,“ segir Árni og að í því sam­hengi verði honum hugsað til vina sinna.

Al­var­legast þykir honum þó að það eigi að hætta að rann­saka slík mál en mælst er fyrir því í frum­varpinu að mál fari frekar í ein­stak­lings­bundinn far­veg.

„Mikil­vægast er að rann­saka á­fram og af­hjúpa ó­boð­lega með­ferð á vist­heimilis­börnum sam­fé­laginu til heilla. Ég trúi ekki öðru en að Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, hafi sóma­kennd sem leiði til þess að hún hafi frum­kvæði að því að leið­rétta frum­varpið og sýna þar með raun­veru­legan sátta­vilja og sann­girni.“

Gígja Skúladóttir segir þolendur enn og aftur standa vanmáttug.
Fréttablaðið/Ernir

Skilnings- og ábyrgðarleysi gagnvart fortíðinni

Þær Gígja og Brynja Skúla­dætur og systur skila einnig um­sögn eins og fleiri sem voru vistaðar Laugalandi. Þær taka undir það sem Árni segir.

„Ég tel þetta frum­varp mikla aftur­för í þessum mála­flokki og að í því birtist skilnings- og á­byrgðar­leysi gagn­vart upp­gjöri við for­tíðina, sem hið opin­bera ber á­byrgð á. Undan­farið hefur verið fjallað opin­ber­lega um vist­heimilið að Lauga­landi/Varp­holti og er ný­út­komin skýrsla um það mál sem gerðist í ó­þægi­lega ná­lægum sam­tíma. Við eigum því miður enn langt í land með að tryggja mann­réttindi fólks á stofnunum en með því að hætta rann­sóknum er verið að loka augunum fyrir því að þessi saga er búin að endur­taka sig aftur og aftur. Einnig er hætta á því að margt af því fólki sem sannar­lega ætti rétt á sann­girnis­bótum treysti sér ekki í ein­stak­lings­bundna sönnunar­færslu í sínu máli og að rétt­lætið muni því aldrei rata til þeirra,“ segir Brynja sem dæmi í sinni um­sögn.

„Frumvarp þetta ber með sér að ekki hefur verið haft samráð við þá sem málið varðar. Ekkert um okkur, án okkar (nothing about us, without us) ætti að vera leiðarstefið. Enn og aftur stöndum við sem urðum fyrir valdbeitingu og ofbeldi af hendi ríkisvaldsins vanmáttug gagnvart ákvarðanatöku er varðar lífsgæði okkar og réttindi,“ segir Gígja um máið

Katrín Jakobsdóttir ræddi frumvarpið á Fréttavaktinni í kvöld en viðtalið við hana er hægt að sjá hér að neðan.