Félag Prestvígðra kvenna fer fram á afsögn séra Arnaldar Bárðarsonar, formanns Prestafélags Íslands. Þetta kemur fram í nýrri í ályktun Félags prestvígðra kvenna.
Félagsfundur Félags prestvígðra kvenna var haldinn í gærkvöldi, þar sem útvarpsviðtal Arnaldar á Útvarpi Sögu í síðustu viku var meðal annars rætt.
Í ályktuninni kemur fram að á þeim vettvangi hafi hann rætt um mál einstaklinga sem eru félagsfólk í Prestafélagi Íslands og varði kvörtun til teymis Þjóðkirkjunnar um kynbundið ofbeldi, kynferðislega áreitni og einelti.
„Orð sem formaðurinn lét falla í viðtalinu er ekki hægt að skilja með öðrum hætti en að hann taki sér stöðu með geranda,“ segir í ályktuninni.

Þá segir að mikilvægt sé að komi fram, að formaður Prestafélags Íslands hafi, áður en hann fór í viðtalið á Útvarpi Sögu, haft samband við tvo þolendur í þeim tilgangi að honum hefði verið falið, fyrir hönd Biskupsstofu, að vinna að úrlausn þessa máls sem formaður Prestafélags Íslands.
„Staðfest hefur verið að honum var ekki fengið þetta umboð. Einnig tjáði hann öðrum þolandanum að PÍ þyrfti að skiptast í tvær fylkingar í málinu og þolandinn gæti ekki leitað til formannsins þar sem hann hefði þegar tekið afstöðu með gerandanum. Því ályktar Félag prestvígðra kvenna að formaður PÍ sé vanhæfur til þess að gæta hagsmuna alls félagsfólks vegna þess að hann tók meðvitaða afstöðu í ofbeldismáli með geranda“ segir í ályktun. Því sé farið fram á afsögn formanns Prestafélags Íslands.
Félag prestvígðra kvenna lýsir yfir trausti á störfum teymis þess sem fjallar um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundið áreiti og ofbeldi innan Þjóðkirkjunnar, og fagnar afstöðu Biskups Íslands gegn öllu ofbeldi innan Þjóðkirkjunnar.
Ályktunina má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:
„Ályktun frá Félagi prestsvígðra kvenna haldinn í Langholtskirkju fimmtudaginn 15. september 2022.
Föstudaginn 9. september s.l. var á Útvarpi Sögu útvarpað viðtali við formann Prestafélags Íslands, hér eftir PÍ. Þar ræddi formaðurinn um mál einstaklinga sem eru félagsfólk í PÍ og varðar kvörtun til teymis Þjóðkirkjunnar um kynbundið ofbeldi, kynferðislega áreitni og einelti. Orð sem formaðurinn lét falla í viðtalinu er ekki hægt að skilja með öðrum hætti en að hann taki sér stöðu með geranda.
Mikilvægt er að fram komi að formaður PÍ hafði áður en hann fór í þetta viðtal haft samband við tvo þolendur í þeim tilgangi að fá upplýsingar um málið og gera lítið úr trúverðugleika teymisins. Í öðru tilvikinu hélt formaður því fram í samtali við þolanda að honum hefði verið falið f.h. Biskupsstofu að vinna að úrlausn þessa máls sem formaður PÍ. Staðfest hefur verið að honum var ekki fengið þetta umboð. Einnig tjáði hann öðrum þolandanum að PÍ þyrfti að skiptast í tvær fylkingar í málinu og þolandinn gæti ekki leitað til formannsins þar sem hann hefði þegar tekið afstöðu með gerandanum.
Því ályktar Félag prestsvígðra kvenna að formaður PÍ sé vanhæfur til þess að gæta hagsmuna alls félagsfólks vegna þess að hann tók meðvitaða afstöðu í ofbeldismáli með geranda.
Félag prestsvígðra kvenna lýsir yfir trausti á störfum teymis þess sem fjallar um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundið áreiti og ofbeldi innan Þjóðkirkjunnar.
Félagið fagnar eindreginni afstöðu Biskups Íslands gegn öllu ofbeldi innan Þjóðkirkjunnar.
Félag prestvígðra kvenna fer fram á afsögn formanns Prestafélags Íslands.“
Sent fyrir hönd kvenna í FPK, Guðbjörg Jóhannesdóttir.