„Við tókum for­skot á sæluna í fyrra þegar við hófum her­ferðina og aðal­lega með því að út­búa kynningar- og náms­efni um þennan mikil­væga rétt,“ segir Bryn­dís Bjarna­dóttir, her­ferðar­stjóri hjá Ís­lands­deild Am­ne­sty International, um nýja al­þjóð­lega her­ferð Am­ne­sty til varnar for­dæma­lausri ógn við réttinum til mót­mæla á heims­vísu sem hófst í dag. Þessi al­þjóð­lega her­ferð styður við her­ferð sem Ís­lands­deild Am­ne­sty International hóf í fyrra og ber heitið Án mót­mæla verða engar breytingar.

Bryn­dís segir að laga­lega sé ekki beint til réttur til að mót­mæla en að hann tengist beint rétti til tjáningar­frelsis og til funda­frelsis.

„Það sem við sáum, og höfum verið að sjá síðustu ár, ekki hvað síst þegar kórónu­veirufar­aldursinn stóð sem hæst, er að það eru alltaf fleiri ríkis­stjórnir að brjóta á rétti fólks, bæði til tjáningar­frelsis og fundar­halda. Á ógn­væn­legum hraða og krafti,“ segir Bryn­dís en í frétta­til­kynningu sam­takanna er bent á til dæmis að í Rúss­landi, Srí Lanka, Frakk­landi, Sengal, Íran, Níkaragva, hafa stjórn­völd gripið til aukinna ráð­stafanna til að bæla niður skipu­lagða and­stöðu.

Það eru alltaf fleiri ríkis­stjórnir að brjóta á rétti fólks, bæði til tjáningar­frelsis og fundar­halda.

„Mót­mælendur vítt og breitt um heiminn mæta marg­vís­legum hindrunum. Má þar nefna að rétturinn til að mót­mæla er víða tak­markaður með laga­setningum og öðrum að­gerðum, mis­beitingu valds, auknu ó­lög­mætu fjölda­eftir­liti sem beinist gegn mót­mælendum, lokunum og rit­skoðun á netinu á­samt of­beldi og út­skúfun. Á sama tíma sæta jaðar­hópar mis­munun og mæta enn frekari hindrunum,“ segir í til­kynningu her­ferðarinnar en með henni er bent á nauð­syn þess að standa með þeim sem eru skot­mark stjórn­valda og styðja hreyfingar sem berjast fyrir um­bótum og mann­réttindum.

Frá mótmælum í Frakklandi.
Fréttablaðið/EPA

Bylgju mótmæla mætt með tálmunum og ofbeldi

„Á undan­förnum árum höfum við orðið vitni að mörgum af stærstu mót­mæla­hreyfingum síðustu ára­tuga. Black Lives Matter, MeT­oo og hreyfingar gegn lofts­lags­breytingum hafa orðið milljónum ein­stak­linga um heim allan hvatning til að halda á götur úti eða á netið og krefjast jafn­réttis, rétt­lætis, réttarins til að afla sér lífs­viður­væris og þess krafist að bundið sé enda á kyn­bundið of­beldi og mis­munun,“ segir Agnès Calla­mard aðal­fram­kvæmda­stjóri Am­ne­sty International, í til­kynningunni.

„Nánast undan­tekningar­laust hefur þessari bylgju fjölda­mót­mæla verið mætt með tálmunum og of­beldi af hálfu stjórn­valda. Í stað þess að greiða fyrir réttinn til að mót­mæla ganga yfir­völd sí­fellt lengra í til­raun sinni til að tak­marka þennan rétt. Því á­kváðu stærstu mann­réttinda­sam­tök í heimi, að hefja þessa her­ferð á þessum tíma­punkti. Það er kominn tími til að rísa upp gegn vald­höfum og minna þá á ó­af­salan­legan rétt okkar til að mót­mæla, tjá ó­á­nægju okkar og krefjast breytinga í sam­einingu á frjálsan og opin­beran hátt.“

Frá kröfufundi Trans Ísland vegna ákvörðunar Sundsambandsins að kjósa með því að banna trans konum að keppa á afreksstigi í sundi.
Fréttablaðið/Valli

Þarf ekki að líta langt

Bryn­dís segir að það þurfi ekki að líta langt til að sjá slíkar breytingar og nefnir sem dæmi Bret­land og Frakk­land þar sem lög­gjöf hefur verið hert á síðustu árum en Í Bret­landi inni­halda ný lög á­kvæði sem veita lög­reglu víð­tæk völd, til dæmis heimild til að banna „há­vær mót­mæli“. Frá árinu 2011 hefur legið bann við pólitískum mót­mælum í mið­borg Dakar í Senegal sem úti­lokar mót­mæli nærri öllum opin­berum byggingum stjórn­valda.

Ykkar starf byggir á þessu að miklu leyti?

„Já, og með þessu er líka verið að benda á hvernig þetta er máttugt vopn og það er fjallað um það í nám­skeiðinu sem er hægt að taka á netinu að með mót­mælum hefur fólk á­orkað ýmsum sam­fé­lags­legum breytingum í gegnum tíðina og við styðjum fólk sem mót­mælir mann­réttinda­brotum, mann­réttinda­frömuði og í raun hvetjum til þess að fólk nýti sér þennan rétt,“ segir Bryn­dís og að fólk geti gert það með ýmsum leiðum eins og kröfu­göngu og setu­verk­falli.

„Það er mikil þörf á að minna á þennan rétt þegar stjórn­völd eru að brjóta á honum með hrotta­legum hætti víða,“ segir Bryn­dís að lokum.

Hér á vef Am­ne­styer hægt að kynna sér her­ferðina betur og skrá sig á nám­skeið sem fjallar um það sama.