Mikill órói virðist vera meðal heil­brigðis­starfs­fólks í Kína í kjöl­far Co­vid-19 kóróna­veirunnar en að því er kemur fram í frétt South China Morning Post voru að minnsta kosti 500 heil­brigðis­starfs­menn smitaðir um miðjan síðasta mánuð.

Frá því að Co­vid-19 kom fyrst upp hafa 45 þúsund manns smitast og 1.116 látist en veiran kom fyrst fram í kínversku borginni Wuhan í Hubei-héraði. Langflestir þeirra sem smitaðir eru koma frá því héraði og aðeins tvö dauðsföll hafa orðið utan Kína.

Veiran hefur nú dreift sér til 27 landa utan Kína og hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin varað við áhrifum hennar. Þá hafa nokkur sýni verið til rannsóknar hér á landi en engin smit af völdum veirunnar hafa verið staðfest.

Merki um það hversu smitandi veiran er í raun

Þrátt fyrir að vel hafi verið fylgst með út­breiðslu veirunnar hefur veru­lega lítið komið fram um smit meðal heil­brigðis­starfs­fólks en fjöl­margir hlúa nú að þeim sem hafa smitast í landinu. Sam­kvæmt heimildum Morning Post hefur læknum og hjúkrunar­fræðingum verið bannað að gefa upp heildar­fjölda þeirra sem hafa smitast.

Kín­versk yfir­völd hafa verið harð­lega gagn­rýnd fyrir við­brögðin við veirunni og vakti það mikla reiði þegar Li Wen­li­ang, kín­verskur læknir í Wu­han, lést í síðustu viku eftir að hafa smitast af sjúk­lingum sínum en að minnsta kosti þrír heilbrigðisstarfsmenn hafa látist vegna veirunnar. Li vakti fyrst at­hygli á veirunni í snemma í desember í fyrra og varaði hann aðra við en hann var í kjöl­farið sakaður um að dreifa á­róðri gegn kín­verskum yfir­völdum.

Heil­brigðis­yfir­völd vinna nú að því að bæta móralinn hjá heil­brigðis­starfs­fólki og er talið að það sé ein á­stæðan fyrir því að ekki hafi verið greint frá fjölda smita. Sér­fræðingar halda því aftur á móti fram að fjöldi heil­brigðis­starfs­fólks sem hafi smitast sé til merkis um það hversu smitandi veiran er í raun og að starfs­mennirnir séu í sér­stakri hættu á að smitast.