„Það er til skammar fyrir ríkis­stjórnina að hjúkrunar­fræðingar hafi séð sig knúna til að boða til verk­falls,“ segir í til­kynningu frá þing­flokki Pírata. Hjúkrunar­fræðingar sam­þykktu með miklum meiri­hluta í gær að fara í ó­tíma­bundið verk­fall þann 22. júní ef samninga­nefndir Fé­lags ís­lenskra hjúkrunar­fræðinga (Fíh) og ríkisins ná ekki saman fyrir það.

„Van­þakk­læti fjár­mála­ráð­herra og ó­bil­girni samninga­nefndar ríkisins hafa reyndar verið fyrir hendi í langan tíma, en að sjá ekki dug sinn í því að semja nú til dags, í kjöl­far stærstu þol­raunar ís­lensks heil­brigðis­kerfis, er hrein­lega neyðar­legt fyrir ríkis­stjórnina,“ segir þing­flokkur Pírata.

Í til­kynningu frá flokknum segir að síðustu mánuðir hafi sýnt á ó­yggjandi máta hve ó­trú­legri þraut­seigju, fórn­fýsi og dug heil­brigðis­starfs­fólk landsins býr yfir. „Öllum ætti að verða orðið ljóst hversu ó­missandi störf hjúkrunar­fræðinga og annars heil­brigðis­starfs­fólks eru fyrir sam­fé­lagið.“

Píratar segjast á­vallt hafa hvatt til að for­gangs­raða fjár­munum ríkisins í þágu heil­brigðis­mála. Þannig sé hægt að tryggja fram­úr­skarandi heil­brigðis­þjónustu fyrir þá sem á henni þurfi að halda. „Hjúkrunar­fræðingar gegna þar lykil­hlut­verki. Góð kjör og góð starfs­að­staða hjúkrunar­fræðinga er grund­vallar­for­senda fyrir góðu heil­brigðis­kerfi. Hjúkrunar­fræðingar eru grund­vallar­for­senda fyrir góðu heil­brigðis­kerfi,“ segir í til­kynningunni.

Þing­flokkur Pírata segist því styðja hjúkrunar­fræðinga í kjara­bar­áttu sinni. „Boltinn er nú hjá fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra sem þarf að tryggja samninga­nefnd ríkisins þær heimildir sem þarf til að ganga að kröfum hjúkrunar­fræðinga.“

Má ekki verða af verkfalli

Kjara­samningar hjúkrunar­fræðinga hafa verið lausir í rúmt ár. Samninga­nefndir Fíh og ríkisins náðu saman um nýjan samning í apríl en hann var felldur í at­kvæða­greiðslu fé­lags­manna. Í gær sam­þykktu hjúkrunar­fræðingar svo í raf­rænni at­kvæða­greiðslu að fara í ó­tíma­bundið verk­fall sem hefst þann 22. júní ef ekki næst að semja fyrr. Rúm 85 prósent þeirra sem greiddu at­kvæði vildu fara í verk­fall.

Ljóst er að fari hjúkrunar­fræðingar í verk­fall gæti það haft hræði­legar af­leiðingar í för með sér en mikið álag hefur verið á heil­brigðis­kerfinu vegna kórónu­veirufar­aldursins. Páll Matthías­son, for­stjóri Land­spítalans, sagði í gær að fyrir­hugað verk­fall hjúkrunar­fræðinga væri mikið á­hyggju­efni. „Af verk­­falli má ekki verða, svo ein­falt er það. Áður en það brestur á verða samnings­­aðilar að ná saman og ég hvet þá ein­­dregið til að ljúka samningum í tíma,“ sagði hann.