Forvígismenn helstu samtaka fatlaðs fólks á Íslandi, Geðhjálpar, Landssamtakanna Þroskahjálpar og ÖBÍ réttindasamtaka segja félagsmenn sína vera að dragast enn meira aftur úr öðrum landsmönnum í tekjum.

Bilið á milli örorkulífeyris og launa á almennum vinnumarkaði sé að aukast. Kjaragliðnun á milli þessara tveggja hópa hafi verið árviss í hálfan annan áratug.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, segir þetta vera tusku í andlit þeirra sem síst skyldi á Íslandi. „Okkar fólk situr bara á hakanum. Það er ekki hægt að upplifa það öðruvísi,“ segir hún og kveðst sár og reið fyrir hönd þessa hóps sem ber minnst úr býtum í samfélaginu.

„Hér á okkar skrifstofu er stöðugt símaálag. Fólk er reitt og það kvíðir næstu dögum,“ lýsir hún og bætir því við að á sama tíma og kjörin rýrni í samanburði við aðra hópa hækki allt; húsleigan, matarkarfan, lyf og læknisþjónusta.

„Fyrir vikið á þessi hópur enga möguleika á að borga það verð sem sett er upp í samfélaginu,“ segir Þuríður Harpa. „Allt hefur hækkað umfram þolmörk,“ bætir hún við.

Í ályktun samtakanna segir að í dag muni 80 til 150 þúsund krónum á lægstu óskertu greiðslum almannatrygginga og launatöxtum ef miðað er við launatöflur Starfsgreinasambandsins (SGS).

Það sé ekki aðeins réttlætismál að kjör fatlaðs fólks fylgi launaþróun í landinu, heldur sé það lífsspursmál. Samtökin skori því á ríkisstjórnina að leiðrétta lífeyrisgreiðslur og hækka þær um að minnsta kosti 42 þúsund krónur á mánuði.

„Gleymum því ekki,“ segir Þuríður Harpa, „að sjálfur fjármálaráðherra hefur lýst því yfir í fjölmiðlum að vísitölufjölskylda á lágmarkslaunum nái ekki endum saman. Hvað megum við þá segja um öryrkja sem eru eftirbátar allra annarra í kjörum?“ spyr Þuríður Harpa og minnir jafnframt á að kannanir sýni að 80 prósent fatlaðs fólks sem þarf að reiða sig á tekjur almannatrygginga nái ekki endum saman.

„Samt er bilið að aukast á milli öryrkja og lægstlaunaða fólksins úti á vinnumarkaði,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir.