„Ef þú notar kreditkort erlendis ertu alltaf að borga nokkrum prósentustigum hærra heldur en gengisskráning þess dags segir til um,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sem kallar eftir samkeppni bankanna í þessum efnum.

Breki segir gengismun í kreditkortafærslum vera gífurlegan.

„Þetta er stór tekjuþáttur hjá bönkunum. Bankarnir mættu gera miklu betur í samkeppni hvað varðar gengi þeirra kreditkorta sem verið er að nota,“ segir Breki og kallar eftir alvöru samkeppni.

„Þessi gengismunur er alveg út úr kortinu,“ segir Gylfi Magnússon, prófessor við Háskóla Íslands.

Gylfi segir þóknanirnar sem bankarnir taka gríðarlega háar, þær séu oft mörg prósent. Ofan á þær komi færslugjöldin.

Þá tekur Gylfi undir gagnrýni Breka varðandi samkeppni á bankamarkaði. „Þetta endurspeglar að það er voða lítil samkeppni á þessum markaði,“ segir hann. Vonandi líði núverandi kortakerfi undir lok og nýjar lausnir leiði til samkeppni.

Borið hefur á að íslenskir ferðamenn erlendis séu óvissir um hvort hagstæðara sé að greiða fyrir vörur og þjónustu með íslenskum krónum eða gjaldmiðli þess lands sem þeir eru staddir í. Breki segir Neytendasamtökin reglulega fá fyrirspurnir þess efnis inn á borð til sín.

„Við gerðum könnun á þessu fyrir nokkrum mánuðum sem leiddi í ljós að það var alltaf betra að versla í mynt þess lands sem viðkomandi er staddur í. Gengið var þá bara hagstæðara neytendum,“ segir Breki. Þetta snúi að því hvort bankinn á Íslandi skipti yfir í erlendu myntina, eða það fyrirtæki sem verslað er við skipti yfir í íslenskar krónur.

„Og það var undantekningarlaust hagstæðara fyrir fólk að greiða í erlendri mynt,“ segir Breki.

Að sögn sérfræðings innan úr fjármálakerfinu sem gjörþekkir til þessara mála kostar orðið nánast það sama að taka út seðil í banka á Íslandi og að nota kortið á Íslandi. Ef tekið er út úr hraðbanka erlendis bætist 2,75 prósenta álag ofan á upphæðina, sem merkir að þá er orðið ódýrara að taka með sér seðla að heiman en að nota kortið í hraðbanka ytra.