„Engin haldbær rök eru lögð fyrir því að jarðgöng eigi sérstaklega að vera gjaldskyld umfram önnur samgöngumannvirki,“ segir bæjarráð Ísafjarðarbæjar í bókun sinni sem mótmælir áformum Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra um gjaldtöku í jarðgöngum til að fjármagna gangagerð undir Fjarðarheiði.

Er bent á að Ísafjarðarbær hafi orðið til í samhengi við gröft Vestfjarðaganga. Göngin séu í miðju sveitarfélagsins og ekki hægt að komast milli fjarða nema í gegnum þau. Önnur göng, til Bolungarvíkur, séu innan atvinnusóknarsvæðisins. Er sagt að göngin geri Vestfirði að þeirri samstæðu heild sem svo lengi hafi verið stefnt að. „Margir aðrir þættir daglegs lífs verða fyrir neikvæðum áhrifum af fyrirhugaðri gjaldtöku,“ segir bæjarráðið.