Evrópskir ráðamenn og hagsmunahópar viðskiptalífs í álfunni gagnrýna í sífellt meiri mæli ferðabann Bandaríkjamanna, segja það órökrétt og eiga sér ekki stoð í vísindum. Þeir krefjast þess að sömu reglur gildi um Evrópubúa og Bandaríkjamenn, sem geta ferðast án vandkvæða til Evrópu. Þetta þurfi að ganga í báðar áttir.
Það felur í sér bann við komu þeirra til Bandaríkjanna, sem ekki eru ríkisborgarar eða með dvalarleyfi, sem verið hafa síðustu 14 daga í Kína, Írlandi, Bretlandi, , Indlandi, Íran, Brasilíu, Suður-Afríku og í Schengen-löndunum 26, þar á meðal Íslandi. Ferðabannið var upphaflega sett í janúar en tók þá aðeins til ferðalaga frá Kína en í mars í fyrra setti Donald Trump þáverandi Bandaríkjaforseti einnig bann við ferðalögum frá Evrópu.
Bandarísk yfirvöld segja tilgang bannsins að hindra að Delta-afbrigðið komi gegnum landamærin. Afbrigðið hefur hins vegar lengi verið landlægt vestanhafs og mikill meirihluti smita þar er Delta. Þrátt fyrir að bólusetningarherferð stjórnvalda hafi farið af stað af krafti hefur mjög dregið úr fjölda þeirra sem bólusettir eru dag hvern. Mörg Evrópuríki eru nú með hærra hlutfall bólusettra en Bandaríkin. Meðaltal bólusetningarhlutfalls í ríkjum Evrópusambandsins er 46 prósent en 49 í Bandaríkjunum, sem er mjög svipað miðað við höfðatölu.
Bandaríkjamenn hafa getað ferðast til Evrópu og segja evrópskir bandamenn þeirra bent á að minni takmarkanir séu á ferðalögum til landsins frá löndum þar sem mikið er um Covid-smit og heilbrigðiskerfi sem illa getur tekist á við ástandið. Gagnrýnendur segja bannið leggjast þungt á evrópskar fjölskyldur.
Við viljum bara einhvers konar sanngirni og skynsemi
„Við viljum bara einhvers konar sanngirni og skynsemi,“ segir Damien Regnards, íhaldssamur þingmaður á franska þinginu við Washington Post. Aðferðafræði Bandaríkjanna „gerir lífið ómögulegt fyrir fólk og mun verða gríðarlega kostnaðarsamt.“
Hann segir þetta ekki snúast bara um ferðamennsku. „Það ber að hafa í huga að það eru þúsundir Evrópubúa strandaðir í Bandaríkjunum sem hafa ekki séð fjölskyldur sínar í meira en ár og þetta leggst þungt á fólk.“

„Vandamálið er franskir íbúar í Bandaríkjunum sem hafa ekki græna kortið eða bandarískt vegabréf. EF þeir fara aftur til Frakklands vita þeir ekki hvenær þeir eiga afturkvæmt til Bandaríkjanna,“ segir Roland Lescure, þingmaður í flokki Emmanuel Macron Frakklandsforseta.
„Ég held að gagnkvæmi sé skynsamleg. Við höfum opnað Schengen fyrir bandarískum ferðamönnum en Bandaríkin hafa ekki gert það sama fyrir okkar þegna,“ segir Radoslaw Sikorski, formaður nefndar Evrópuþingsins sem hefur samskipti við Bandaríkin á sinni könnu.

Evrópskir löggjafar biðluðu til embættismanna vestanhafs í eigin persónu í síðustu viku og sögðu svipaðar smittölur og sambærilegt bólusetningarhlutfall beggja megin Atlantsála ætti að leiða til frjálsari ferðalaga – í báðar áttir. Sikorski segir að hann hafi fundað bæði með þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna og utanríkisráðuneytið. Báðu þeir um að Bandaríkjamenn tækju upp sömu reglur og ferðalög og Evrópuríki.
Það er „engin rökrétt vísindalega skýring“ á aðgerðum Bandaríkjamanna segir í leiðara á vef þýska fjölmiðilsins RND. Ferðabannið sé hneyksli og sé líkt og „múr á miðju Atlantshafi.“
„Frá lýðheilsusjónarmiði þá er ferðabannið illskiljanlegt ef Bandaríkjamenn geta ferðast og smitast, próf eru skynsamleg lausn,“ segir Tobias Kurth, þýskur lýðheilsusérfræðingur.
Angela Merkel kanslari Þýskalands fór í opinbera heimsókn til Bandaríkjanna fyrr í mánuðinum og ljáði hún máls á ferðabanninu á fundi sínum með Joe Biden forseta. Bannið hefur einkum leikið þýsk fyrirtæki grátt en þýskt atvinnulíf treystir mjög á útflutning.
Í yfirlýsingu frá samtökum fyrirtækja í vélaiðnaði (VDMA) í gær sagði að bannið væri „fullkomlega óskiljanlegt.“ Þau segja marga starfsmenn fyrirtækja ekki fá undanþágur til að ferðast vestur um haf sem hamlaði mjög viðskiptum, á sama tíma og Bandaríkin og Evrópuríki keppast við að koma efnahag sínum aftur í gang.

„Það er engin réttlæting fyrir því að skilja út undan evrópska viðskiptaferðalanga,“ segir Ulrich Ackerman, formaður VDMA.
„Þetta snýst um að halda viðskiptasambandinu gangandi. Með því að grípa ekki til aðgerða sem eru viðunandi og sveigjanlegar erum við að skaða þessi gagnkvæmu efnahagslegu tengsl,“ segir Constanze Stelzenmüller hjá hugveitunni Brookings Institution. Sjálf er hún þýskur ríkisborgari og getur ekki farið til heimalandsins og snúið aftur vegna bannsins.