Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfir­maður Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunarinnar (WHO), sagði á blaða­manna­fundi í dag að það væri engin töfra­lausn við CO­VID-19 heims­far­aldrinum þrátt fyrir að þróun bólu­efna hafi lofað góðu víðs vegar í heiminum.

„Það er engin töfra­lausn til staðar að svo stöddu og það verður kannski aldrei,“ sagði Ghebrey­seus í á­varpi sínu á fundinum og bætti við að núna væri mikil­vægt að ríki ein­beittu sér að að­gengi að heil­brigðis­kerfinu og sjúk­dóma­vörnum. Þá væri það mikil­vægt að greina, ein­angra og rekja öll til­felli smits.

Hann í­trekaði enn fremur mikil­vægi ein­stak­lings­sótt­varna, að halda á­kveðinni fjar­lægð frá öðrum, nota grímu, þvo hendur reglu­lega, og svo fram­vegis. „Skila­boðin til fólksins og ríkis­stjórna eru ein­föld: gerið allt,“ sagði Ghebreysus.

Rekja uppruna veirunnar

Þá greindi hann frá því að frum­at­hugun stofnunarinnar á upp­runa veirunnar í Kína væri nú lokið og að um­fangs­mikil rann­sókn í sam­starfi við vísinda­menn um allan heim væri nú hafin. Far­alds­fræði­legar rann­sóknir verða fram­kvæmdar í Wu­han þar sem upp­runa veirunnar verður leitað.

Hann lýsir því að það hafi dregið alla aftur niður á jörðina þegar neyðar­nefnd stofnunarinnar á­lyktaði á fundi sínum síðast­liðinn föstu­dag að neyðar­á­stand væri enn á heims­vísu vegna far­aldursins en neyðar­á­standi á heims­vísu var lýst yfir fyrir rúmum sex mánuðum.

Ghebreyesus stað­festi á­lyktun nefndarinnar og voru ríki hvött til að beita sér fyrir frekari við­búnaði og við­brögðum gegn veirunni. Þá í­trekaði stofnunin að far­aldurinn yrði að öllum líkindum lang­dreginn og því væri mikil­vægt að bregðast strax við.

Eins og staðan er í dag hafa fleiri en 18 milljón tilfelli COVID-19 verið staðfest á heimsvísu og rúmlega 690 þúsund látist eftir að hafa veikst.