Lyfjastofnun Evrópu, EMA, og sérfræðingar um bóluefni hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, WHO, funduðu í gær um bóluefni AstraZeneca vegna tilkynninga um blóðtappa í kjölfar bólusetninga. Þó nokkur lönd í Evrópu hafa hætt að nota bóluefnið tímabundið vegna málsins.

Gert er ráð fyrir að Lyfjastofnun Evrópu muni gefa út tilmæli vegna bóluefnisins á morgun og þar með verði tekin ákvörðun um það hvað verður um bóluefnið til lengri tíma litið. Stofnunin hefur þó gefið út að það sé hægt að nota bóluefnið áfram þar sem ávinningurinn af bólusetningu sé meiri en áhættan, ekki sé sýnt fram á bein tengsl á milli blóðtappa og notkunar bóluefnis AstraZeneca.

Um það bil sautján milljónir hafa þegar fengið bóluefnið í Bretlandi og Evrópu en AstraZeneca greinir frá því að fram til síðustu viku hafi færri en 40 tilfelli blóðtappa verið tilkynnt.

Bresk lyfjayfirvöld og WHO hafa gefið út að ekkert bendi til að tengsl séu á milli bólusetningar og tilkynninga um blóðtappa, en að því er kemur fram í frétt BBC eru tilkynningar um blóðtappa í kjölfar bólusetningar færri en búist var við almennt í samfélaginu.

Svíþjóð bættist í gær í hóp þeirra landa sem stöðvað hafa bólusetningu með bóluefni AstraZeneca tímabundið. Hér á landi var tekin ákvörðun um að stöðva notkun bóluefnisins í síðustu viku en ákvörðunin var tekin í varúðarskyni á meðan Lyfjastofnun Evrópu fjallar um möguleg tengsl bólusetningar með bóluefni AstraZeneca við blóðtappa.

Á meðal landa þar sem hætt hefur verið notkun á bóluefni AstraZeneca eru Danmörk, Þýskaland, Frakkland, Írland, Spánn og Noregur. Í Noregi hafa þrír heilbrigðisstarfsmenn verið lagðir inn á sjúkrahús með blóðtappa eftir að hafa fengið bóluefnið og í Danmörku má rekja eitt dauðsfall til blóðtappa eftir bólusetningu með efninu. Í Bretlandi og Belgíu verður haldið áfram að bólusetja með efninu.

Hér á landi hefur Lyfjastofnun nú fengið fjórtán tilkynningar um dauðsföll í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19. Þetta staðfestir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar. Allar tilkynningar um dauðsföll tengjast bóluefni Pfizer, en ekki er talið að um orsakasamband sé að ræða.

Greint var frá því í síðustu viku að af þeim alvarlegu tilkynningum sem Lyfjastofnun hefði fengið væru þrjár vegna mögulegra aukaverkana með blóðtappa. Þeim tilkynningum hefur ekki fjölgað frá því fyrir helgi, en ein tilkynning um blóðtappa hefur borist fyrir hvert bóluefni sem er nú í notkun.

Hlutfallslega flestar tilkynningar eru vegna bóluefnis Moderna en 1.250 manns hafa verið fullbólusett með því bóluefni. Alls hafa 142 tilkynningar borist fyrir bóluefni Moderna. 180 tilkynningar eru síðan vegna bóluefnis AstraZeneca.