Innlent

Segja „eitraðri karlmennsku“ stríð á hendur

Hrinda á af stað nýrri byltingu sem snýr að staðalímynd karlmanna. Karlmenn eru hvattir til þess deila sögum sínum á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #karlmennskan.

Þorsteinn V. Einarsson er forsprakki byltingarinnar.

Karlmenn ætla að hrinda af stað nýrri byltingu sem snýr að staðalímyndum þeirra og hvernig karlmennskan hefur „þvælst fyrir þeim“ í gegnum tíðina. Markmiðið er að segja staðalímyndinni stríð á hendur og eru karlmenn hvattir til þess að deila sögum sínum á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #karlmennskan.

Þorsteinn V. Einarsson er forsprakki byltingarinnar en það var Sóley Tómasdóttir sem hvatti hann til dáða. Hann birti færslu á Facebook um málið og hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa; fjölmargir hafa deilt færslunni og sögum sínum á Facebook og Twitter, en nokkrar færslur má sjá hér að neðan. 

Eitruð karlmennskan komið í veg fyrir svo margt

 „Þetta snýr fyrst og fremst að því hvernig hin eitraða karlmennska hefur komið í veg fyrir að við gerum það sem okkur raunverulega langar til að gera,“ segir Þorsteinn í samtali við Fréttablaðið.

Hann nefnir meðal annars tilfinningar í þessu samhengi og þá staðreynd að karlmenn eigi oftar en ekki erfiðar með að tjá líðan sína, enda sé það ekki hið svokallaða norm að menn tjái sínar tilfinningar, og vitnar í vinkonu sína Sóleyju Tómasdóttur: 

„Allir pabbarnir sem vissu ekki að þeir mættu eða gætu knúsað börnin sín. Allir strákarnir sem lærðu ekki heima af því það var ekki kúl. Allskonar leikir sem ekki voru í boði fyrir stráka, menntun sem var ekki raunverulegur valkostur. Hegðun, áhugamál og færni sem aldrei var þróuð. Tilfinningar sem ekki voru ræktaðar. Líðan sem ekki var rædd. Að ekki sé talað um áhrifin á náin sambönd.”

Láta reyna á þolmörk karlmennskunnar

Aðspurður segir Þorsteinn erfitt að henda reiður á hvað það sé sem valdi. „Það er eitthvað sem stendur í vegi fyrir okkur. Í þessum kynjaða veruleika sem við búum í eru tækifæri okkar allra skert og ég er með þessu að reyna að draga það fram í dagsljósið og að sýna fram á þessa eitruðu karlmennsku sem hefur verið fyrir okkur frá því við vorum litlir strákar.“ 

Hann segist ekki muna eftir sögu af sjálfum sér í fljótu bragði, aðra en persónulega rannsókn sem hann gerði fyrir nokkrum árum, en rannsóknin reyndist honum meðal annars hvatning í þessari byltingu. 

„Þetta var ákveðinn aktivisma gjörningur sem ég gerði fyrir um fjórum árum þegar ég testaði mörk karlmennskunnar með því að naglalakka mig. Ég fann það strax að þarna hafði ég stigið út fyrir eitthvað norm, eitthvað box – ósýnilegt - en samt á sama tíma svo ótrúlega áþreifanlegt.  Þarna hafði ég gert eitthvað rangt og fékk stöðugar athugasemdir og augngotur allan þann tíma sem ég var naglalakkaður.“

Þorsteinn tekur fram að byltingin sé ekki síður til þess fallin að styðja við konur í þeirra baráttu, meðal annars í gegnum #metoo. „Þetta gengur svolítið út á það að sjá hversu tilbúnir karlmenn eru til þess að opinbera sjálfa sig og karlmennsku sína, og standa með þessari femínísku byltingu gegn eitraðri karlmennsku,“ segir hann.

Þorsteinn hefur þegar fengið sögur frá karlmönnum, og þrjár þeirra má lesa hér fyrir neðan, auk þess sem fylgjast má með umræðunni um Twitter.

„Takk fyrir þetta frábæra framtak Þorsteinn og Sóley fyrir að hvetja hann til þess!

Mér er ljúft og skylt að taka þátt í þessu átaki. 

Eins og margir vita þá nýt ég þeirra forréttinda að eiga slatta af systrum. Þegar ég var lítill leit ég að sjálfsögðu alveg svakalega mikið upp til stóru systur. Það vildi þannig til að hún æfði ballett af miklum móð. Lengi langaði mig alveg rosalega að prófa ballett en þannig lagað gerðu strákar einfaldlega ekki á þeim tíma og var þeirri skoðun komið skýrt á framfæri við mig; Strákar dansa ekki.

Það er sama sagan af klæðaburði. Helsta fyrirmyndin í lífinu var auðvitað stelpa. Það voru ýmis "stelpuleg" föt sem manni langaði í þegar maður var pjakkur en þar gildir nákvæmlega það sama og í fyrsta dæminu.  Flíkur í kvensniði og/eða mýkri litum voru einfaldlega ekki í boði. Mér þótti alveg fáránlega vænt um fjólubláa og bleika flíspeysu sem ég átti þegar ég var í 4. og 5. bekk en ég var alveg logandi hræddur um hvað bekkjarfélögunum myndi finnast um hana.

Svo er það þetta með að sýna tilfinningar. Mér er mjög minnisstæð sú innprentun að maður ætti aldrei að sýna tilfinningar á almannafæri. Þetta var ekki bara í fjölskyldunni heldur líka í skólanum og öllu samfélaginu. Það var nógu slæmt ef maður varð reiður og sýndi það en einhvern veginn var verra ef maður sýndi væntumþykju eða einhverja mýkt. Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu bældur maður var þegar maður var að stíga fyrstu skrefin í tilhugalífinu.

Það stærsta í þessu samhengi hjá mér er að karlmenn leituðu sér ekki aðstoðar. Ef maður hefði verið alinn upp við að leita sér aðstoðar við vandamálum þá hefði það vafalítið geta sparað mér miklar þjáningar. Ég leitaði sjálfur ekki til sálfræðings fyrr en ég var 32 ára og það ferli sem hófst þann fallega dag hefur einfaldlega gjörbreytt mínu lífi til hins betra. Það hefði verið ansi gott ef það hefði gerst aðeins fyrr.
Svo það sé á hreinu er ég ekki að blammera foreldra mína fyrir þetta. Svona var tíðarandinn bara. Við getum gert betur!

#karlmennskan”

-----

Mig hefur ALLTAF langað að læra á hljóðfæri og söng. Ég söng örugglega í 4 ár straight, án þess að stoppa, þegar ég var yngri. En þegar menn komust á ákveðinn aldur (14-15 ára), þá breyttist margt. 

Þá var "lúðalegt" að læra á píano, "hommalegt" að læra á flautu og "asnalegt" að læra á gítar. Í dag, myndi ég óska mér þúsund sinnum ef ég gæti, langar mig ekkert annað en að kunna að spila á píanó.

 Langaði það svo mikið að ég grét hástöfum þegar píanókennarinn minn dó, 7 árum eftir að ég hætti hjá honum, og var bara hjá honum í 2 mánuði. Þegar ég var 11 ára, keypti pabbi rándýrt píanó fyrir mig, bara til að ég gæti verið ánægður og notið þess að vera ég sjálfur. En það entist stutt, þar sem hópþrýstingur, félagsleg sambönd og vinátta hafa ekki alltaf verið "my strongest suit". 

Ég hafði átt í vandræðum vegna flutninga, eineltis og af því ég var "rauðhærður". Í rúmlega 10 ár, þá vildi ég ekki SJÁ píanó, án þess að segja eitthvað eins og "Ugh píanó er svo gay", eins og það sé móðgun/niðrandi lýsing? Þetta var "normið" þegar ég var að alast upp og þetta mótaði mitt álit á hljóðfærum og tónlist, því í dag er ég ekkert nema einn af mörgum "rapplúserum". En alltaf verður eftir alla vega smá partur af mér sem hlustar á sorgarlög spiluð á píanó og hugsa hvað hefði verið ef ég hefði aldrei hætt.”

-----

“Hann Steini er hér að starta áhugaverðri umræðu. Ég held að allir hafi gott af því að létta á sér og deila sínum reynslum, sama hverjar þær eru, opinberlega eða í trúnaði við einhverja sem fólk treystir. 

Ég ætla að taka Steina á orðinu og starta þessari umræðu. Verandi ungur drengur með vanstillt skap, kunnandi ekki að stjórna mér og lenda upp á kant við skólakerfið og samnemendur. 

Hafandi ekki getu eða vit til að segja frá hvernig mér liði eða stríðnini sem ég varð fyrir, gerði ég það versta sem ég gat gert og fór að kvelja aðra því ég gat ekki verið minni maður. Ég kom illa fram við allt of marga samnemendur mína og olli þeim sárum kvölum sem ég mun aldrei geta beðið um fyrirgefningar á því ég á þær ekki skilið. 

Ég vona innilega að fólk sjái í dag að ég sé ekki sá sami og ég var. Eina sem ég get gert í framhaldi af þessu er að biðja krakka, unglinga, fullorðið fólk að tala um það sem er að íþyngja þeim og leita sér aðstoðar. Það er í lagi fyrir karla/stráka að gráta og viðurkenna að þeir þurfi aðstoð. Það er í lagi að mistakast. Það er í lagi fyrir karla að vera mannlegir og sýna tilfinningar. #karlmennskan 

Takk Þorsteinn V. Einarsson fyrir að starta þessu”

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Tekinn aftur á ríflega 130 á Reykjanesbraut

Innlent

Lög­reglan leitaði að „Stúfi“ í Bú­staða­hverfi

Innlent

Tekinn á 132 með vélsleðakerru í eftirdragi

Auglýsing

Nýjast

Segja asbest í barnapúðri Johnson & Johnson

Kældi brennandi bíl með snjó

Glæ­ný Boeing-þota nauð­lendir í Íran

Braust inn í bíl en eigandinn sat undir stýri

Ölvaður maður bjálaðist í vegabréfaskoðun

Ísland er dýrasta land í Evrópu

Auglýsing