Samtök um líkamsvirðingu lýsa yfir áhyggjum og vonbrigðum með efnistök Ríkisútvarpsins (RÚV) þegar kemur að umfjöllun um holdafar.

Samtökin hafa sent Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra bréf vegna þess sem þau telja skaðlegrar umfjöllun um holdafar.

Þau benda á að nú í janúar hafa verið sýndir tveir heimildaþættir frá BBC á RÚV. Annarsvegar sé um að ræða þáttinn Skyndimegrunartilraunin (The Big Crash Diet Experiment) þar sem fylgst er með fjórum feitum einstaklingum sem settir eru á öfgafullan, fljótandi megrunarkúr.

Þvert á rannsóknir

Niðurstaða þáttarins er sú að það slæma umtal sem fylgir öfgakenndum megrunarkúrum eigi ekki rétt á sér og að það sé vel á það reynandi að skella sér á slíka kúra. Þessi niðurstaða er þvert á niðurstöður áratuga rannsókna sem hafa tekið af öll tvímæli um að skyndimegranir sem þessar séu stórhættulegar líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu.

Vekja upp viðbjóð áhorfenda

Annar þáttur á RÚV var heimildaþáttur frá BBC sem kallast Sannleikurinn um offitu (The Truth About Obesity). „Þrátt fyrir örlítið gagnrýnari umfjöllun um orsakaþætti er meginþráður þáttarins áhyggjur af heilsufarslegum og fjárhagslegum kostnaði við „flóðbylgju“ og „faraldur“ offitu þar sem spjótin beinast aðallega að hreyfingu og mataræði. Sýnt hefur verið fram á að birtingarmynd fjölmiðla af feitu fólki sem byrði á samfélaginu ýti undir fitufordóma í samfélaginu). Slíkri umfjöllun er oft ætlað að vekja upp viðbjóð og reiði hjá áhorfandanum og er hún oftar en ekki skekkt þar sem hún fjallar um holdafar einungis frá þyngdarmiðaðri nálgun.

Megrunaraðgerðir lofaðar

Einnig er bent á umfjöllun og efnistök RÚV þegar kemur að offituaðgerðum, allt frá fréttaskýringarþáttum eins og Kveik yfir í útvarpsviðtöl við skurðlækna og sjúklinga sem hafa gengist undir slíkar aðgerðir, nú síðast 19. janúar í morgunútvarpi Rásar 2 þar sem skurðlæknir líkti magaermisaðgerðum við gallblöðruaðgerðir. Var ákveðnum dýrðarljóma slegið um þessa tegund aðgerða án þess að farið væri djúpt í aukaverkanir og áhættu, rétt eins og oft áður.

„Það sem kemur aldrei fram í þessari umfjöllun er að fólk sem undirgengst aðgerðirnar upplifir ekki alltaf bætt lífsgæði og stundum versna þau,“ segir ennfremur í bréfinu sem má sjá hér í heild sinni.