Einar Hermannsson, sem í dag sagði af sér formennsku hjá SÁÁ, keypti vændi af konu á árunum 2016 til 2018, en hún er í dag skjól­stæð­ing­ur SÁÁ. Facebook-samskipti Einars og konunnar eiga að sanna þetta. Stundin greinir frá þessu, en í frétt miðilsins um málið kemur fram að yfirlýsing hans komi í kjölfar rannsóknarvinnu Stundarinnar um málið.

Líkt og áður segir á Einar að hafa keypt vændi af konunni á árunum 2016 til 2018, á meðan hún var veikur fíkniefnaneytandi. Ástæðan fyrir því að konan leiddist út í vændi var til að fjármagna neysluna. Þá á hún að hafa gert tilraun til að kæra málið, eftir að hún náði bata á neyslu sinni, en hætti við það. Fram kemur að í dag sé málið fyrnt.

Þá á Embætti landlæknis að hafa verið upplýst um þetta mál árið 2020. Auk þess á að minnsta kosti einn stjórnarmaður í framkvæmdastjórn SÁÁ að hafa verið meðvitaður um það.

Einar sagði af sér formennsku í dag og gaf þá frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Fyrir nokkrum árum svaraði ég auglýsingu á netinu þar sem í boði var kynlíf gegn greiðslu. Sú hegðun er ófyrirgefanleg en ég taldi mér ranglega trú um að þau samskipti væru grafin og gleymd og þau hafa ekki haft áhrif á störf mín fyrir SÁÁ. Ljóst er hins vegar að umræða um þetta mál er einungis til þess fallin að varpa rýrð á SÁÁ ef ég sit þar áfram sem formaður.

Ég iðrast að hafa farið þessa leið og að hafa valdið fjölskyldu minni sársauka vegna hegðunar minnar. Bið ég alla þá sem málið varðar afsökunar á framferði mínu.“