„Það vantar veðlán á Íslandi,“ segir Kristján Markús Sívarsson. Hann vinnur nú að því að koma á fót veðmangaraversluninni PawnShop.is ásamt unnustu sinni, Birtu Lind Hallgrímsdóttur. Hafa þau nú opnað heimasíðu og eru að leita að litlu atvinnuhúsnæði fyrir reksturinn. „Það er ekki komin full virkni á heimasíðuna enn þannig að við erum að gera þetta í gegnum símann,“ segir Kristján. „Við erum með endurskoðanda sem er að passa upp á að hafa þetta allt fullkomlega löglegt.“

Veðlánaverslanir eru algengar víða erlendis. „Þú byrjar á því að hringja, svo kemur þú með verðmæti til okkar og við metum hlutinn, við lánum svo allt frá 15 til 50 prósent af verðmæti hlutarins. Allt eftir ástandi. Svo kemur fólk næstu mánaðamót og borgar okkur með 50 prósent álagningu,“ segir Kristján. „Ef þú færð lánaðar 10 þúsund krónur, þá borgar þú 15 þúsund.“ Ef viðkomandi sækir ekki verðmætin þá verður haft samband, að lokum fer hluturinn í sölu.

Lögum um neytendalán var breytt í lok árs 2019 í kjölfar mikillar umræðu um starfsemi smálánafyrirtækja á Íslandi. Samkvæmt lögunum má heildarlántökukostnaður ekki fara yfir 35 prósent, auk stýrivaxta, af lánsupphæðinni. Samkvæmt upplýsingum frá Neytendastofu getur starfsemi veðmangara fallið undir það að vera handveð samkvæmt lögum um samningsveð. Handveð eru undanskilin lögum um neytendalán. Er eftirlit með starfseminni ekki á vegum Neytendastofu fyrir utan eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum.

Aðspurður hvort 50 prósent álagning sé ekki of há telur Kristján svo ekki vera. „Mér finnst þetta ekkert dýrt. Við lánum mjög lágar upphæðir þannig að vextirnir eru ekki svo háir.“

Sjálfur hefur hann viljað geta veðsett hluti. „Litla manninn vantar að geta fengið pening þótt hann hafi ekkert lánstraust, ég hef sjálfur lent í því að þurfa pening strax og koma að öllum dyrum lokuðum,“ segir Kristján. „Það hefði komið sér vel að geta farið með gítarinn eða eitthvað og náð sér í tíu þúsund kall.“

Kristján leggur mikla áherslu á að ekki verði tekið við þýfi. „Ef fólk kemur með slíkt þá verður það tilkynnt til lögreglu. Við fáum kvittun ef þetta eru dýrir hlutir, við viljum sjá að þú eigir hlutinn.“