Fjöldi ungs fólks sem leggst inn á spítala vegna CO­VID-19 eykst dag frá degi í Bret­landi að sögn lækna þar­lendis. The Guar­dian greinir frá málinu en breskir læknar grát­biðja ungt fólk um að fara í bólu­setningu.

Slakað var á CO­VID tak­mörkunum í Bret­landi að fullu síðustu helgi. Birtust myndir af djamm­þyrstum ung­mennum á fullum nætur­klúbbum á breskum miðlum í kjöl­farið. Til­fellum hefur farið fækkandi þar í landi en 29.173 smit greindust í dag en þau voru 48.161 sunnu­daginn fyrir viku.

Breskir læknar benda á að einn þriðji af þeim sem eru í aldurs­hópnum 18 til 29 ára eigi enn eftir að fá fyrsta skammtinn af bólu­efni gegn veirunni. Hefur Guar­dian eftir Dr. Samönthu Batt-Rawden að CO­VID sjúk­lingar á gjör­gæslu séu stöðugt yngri.

Mikill meiri­hluti þeirra sem þurfi svo mikla læknis­að­stoð vegna CO­VID séu óbólu­settir. Samantha segir það á­takan­legt fyrir heil­brigðis­starfs­fólk að horfa upp á fólk þjást og deyja þegar hægt hefði verið að koma í veg fyrir það.

„Við erum að horfa upp á sjúk­linga á fer­tugs­aldri, jafn­vel þrí­tugs­aldri sem eru í góðu á­sig­komu­lagi og með enga undir­liggjandi sjúk­dóma í öndunar­vélum. Sem læknir á gjör­gæslu grát­bið ég ykkur um að láta bólu­setja ykkur. Ekki láta þetta verða stærstu mis­tök lífs ykkar,“ hefur breski miðillinn eftir lækninum.

Lang­stærstur hluti nýrra smita í Bret­landi er Delta af­brigðið svo­kallaða, rétt eins og hér á landi. Samantha segir með öllu ljóst að bólu­efnin verji ein­stak­linga fyrir slæmum veikindum vegna veirunnar.