Félagsráðgjafafélag Íslands skorar á stjórnvöld að hafa mannúðarsjónarmið í fyrirrúmi í ákvörðunum hvað varðar móttöku flóttafólks og til þess að endurmeta stöðu þeirra 300 sem á að vísa úr landi og skoða frekar hvort veita ætti þessu fólki dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
„Það er mikið áhyggjuefni að stór hópur fólks eigi nú von á brottvísun, sér í lagi þegar fjöldi fólks hefur verið hrakinn á flótta í kjölfar innrásar rússneska hersins í Úkraínu og staðan í mörgum Evrópuríkjum er þröng,“ segir í ályktun félagsins þar kallað er eftir því að Ísland leggi sitt af mörkum til þróunarsamvinnu, mannúðar- og neyðaraðstoðar, sem og móttöku flóttafólks.
Félagið segir það í hrópandi mótsögn við þær móttökur sem flóttafólk frá Úkraínu hefur fengið að íslenska ríkið ætli sér að stuðla að því að hrekja fleiri á flótta um Evrópu með því að vísa fjölda fólks úr landi.
„Með því er verið að auka á áfallastreitu, afkomuóöryggi, heimilisleysi og hættu á að einstaklingar verði fyrir ofbeldi,“ segir að lokum.
Mikið hefur verið fjallað um brottvísanirnar síðustu daga en fyrir helgi var tilkynnt að vísa ætti 300 flóttamönnum úr landi sem hafa jafnvel dvalið hér um langa hríð.