Sér­fræðinga­nefnd Lyfja­stofnunar Evrópu, EMA, hefur nú komist að þeirri niður­stöðu að bólu­efni AstraZene­ca sé virkt og öruggt en þetta kom fram í máli Emer Cooke, for­stjóra EMA, á blaða­manna­fundi nú fyrir skömmu. Sjálf sagðist hún tilbúin til að vera bólusett ef henni væri boðið bóluefni AstraZeneca.

Enn sem komið er hefur ekki verið sannað að tengsl séu á milli bólu­setningar með bólu­efni AstraZene­ca og til­kynningar um blóð­tappa en þó nokkrar þjóðir hafa hætt tíma­bundið að nota bólu­efnið vegna slíkra til­kynninga.

Sér­fræðingar hafa þó í­trekað sagt að á­vinningurinn af bólu­setningu sé meiri en á­hættan og var niður­staða EMA í dag við­búin.

Ekki hægt að útiloka orsakasamband

Að sögn Cooke mun stofnunin rann­saka málið enn frekar á næstunni og þrátt fyrir að þau hafi komist að þeirri niður­stöðu að bólu­efnið sé öruggt segir Cooke ekki hægt að segja fyrir víst að það sé hægt að úti­loka or­saka­sam­band milli blóð­tappa og bólu­setningar.

Stofnunin mælir með því að við­vörun sé sett vegna mögu­legra auka­verkana fyrir bólu­setningu með bólu­efninu á meðan málið er enn til rann­sóknar.