LOGOS lögmannsþjónusta segir að eftir ítarlega skoðun hafi ekki verið brotið gegn jafnræðisreglu í útboðinu á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Bankasýsla ríkisins fékk LOGOS til að skoða þrjá þætti varðandi útboðið í kjölfar ásakana um að brotið hefði verið gegn jafnræðisreglu við útboðið en LOGOS var lögfræðilegur ráðgjafi Bankasýslunnar við sölumeðferðina á hlut í bankanum.

Útboði á hlut ríkisins í bankanum lauk þann 22. mars síðastliðinn og hefur verið harkalega gagnrýnt, bæði hvað varðar aðferðafræði og framkvæmd.

Enn til rannsóknar

Ríkisstjórnin ákvað meðal annars að leggja niður Bankasýslu ríkisins sem sá um útboðið og að frekari sala færi ekki fram á hlut ríkisins í Íslandsbanka fyrr en að lokinni rannsókn og þegar nýtt regluverk lægi fyrir.

Ríkisendurskoðun var falið að hefja úttekt á því hvort salan hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum og þá hefur fjármálaeftirlit Seðlabankans hafi rannsókn á tilteknum þáttum tengdum sölunni.

Könnuðu þrjá þætti

Á vef Bankasýslu ríkisins segir að LOGOS hafi verið falið að svara þremur spurningum:

  1. Hvort skilyrði um takmarka þátttöku í útboðinu við hæfa fjárfesta án skilyrðis um lágmarkstilboð hafi falið í sér brot gegn jafnræðisreglu.
  2. Hvort fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu Bankasýslu ríkisins til að tryggja aðgengi hæfra fjárfesta í útboðinu.
  3. Hvort ákvörðun um að skerða að fullu tilboð tveggja fjárfesta hafi verið andstæð jafnræðisreglu.

Gerðu ekkert rangt

Samkvæmt niðurstöðum LOGOS braut Bankasýsla ríkisins ekki gegn jafnræðisreglunni og voru „fullnægjandi ráðstafanir“ gerðar til að tryggja jafn aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu í lagalegu tilliti.

Þá segir jafnframt að ákvörðun Bankasýslu ríkisins um að skerða að fullu tilboð tveggja „kvikra fjárfesta“ hafi verið í samræmi við jafnræðisreglu og stuðst hafi verið við málefnaleg sjónarmið.

Þar er hátt við tilboðum sem bárust frá eigin viðskiptum Landsbankans og Kviku banka.