Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að áverkar rúmlega tvítugs manns sem var handtekinn aðfaranótt laugardags hafi verið tilkomnir áður en lögregla mætti á vettvang. Líkt og Fréttablaðið greindi frá fyrr í dag var maðurinn fluttur á bráðamóttöku eftir handtöku og var hann talinn kjálkabrotin.

Myndband af atvikinu fór í dreifingu á samfélagsmiðlum en maðurinn var að taka upp aðra handtöku lögreglu í Bankastræti þegar hann var sjálfur handtekinn. Maðurinn vildi ekki tjá sig um málið en hyggst ráðfæra sig við lögfræðing um atvikið.

Þá herma heimildir Fréttablaðsins að myndir úr myndavélum sýni einnig að maðurinn sem var að taka upp hafi verið settur niður á rassinn en ekki andlitið eins og maðurinn hélt fram á bráðamóttöku.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Fréttablaðið að verið væri að skoða síðustu upptökurnar úr búkmyndavélum lögreglumanna en gat ekki tjáð sig frekar um málið á þessum tímapunkti.

Yfirlýsinguna í heild sinni má sjá hér fyrir neðan:

Vegna frétta í fjölmiðlum í dag um handtöku ungs manns og lýsingu á tilurð áverka á honum, m.a. brotnar tennur og hugsanlegt kjálkabrot, vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu taka fram að eftir skoðun á myndefni frá vettvangi verður ekki annað ráðið en áverkir mannsins hafi verið tilkomnir áður en lögreglan var kölluð til og staðfestir myndefnið það.

Upphaf málsins var um hálffimmleytið í fyrrinótt, en þá var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna hópslagsmála í Bankastræti í Reykjavík sem höfðu brotist þar út og var maðurinn og þrír aðrir handteknir á vettvangi.