Erlendir leiðsögumenn á ómerktum bílum virðast vera að stunda svokallaða sjó­ræn­ingj­a­leið­sögn ef marka má nýjar færslur sem birtust á Facebook síðunni Bakland Ferðaþjónustunnar í morgun. Kjartan Valgarðsson, fyrrum formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, vakti athygli á málinu. Hann birti mynd af bíl fyrir framan Foss Hótel með sænsku skráningarmerki. Segir hann að erlendur bílstjóri hafi verið að störfum án leyfis.

„Bíll á sænskum númerum, bílstjórinn renndi í hlað og bauð gestunum góðan dag, setti allar töskurnar inn. “I’m travelling with my friends.”
Engin skráning, ekkert leyfi. Ég held að þetta sé ekki eina dæmið. Tek fram að það var mjög augljóst að þetta var vinna bílstjórans, sem var asískur eins og farþegarnir,“ skrifar Kjartan við myndina.

„Er svona dýrt að nýta íslenskar rútur og leigubílstjóra, að það borgi sig að flytja inn bíl frá Svíþjóð með bílstjóra að sjá um þetta?“

Hann var ekki sá eini sem kannaðist við bílinn og bílstjórann. Marta B Helgadóttir leiðsögumaður sagðist einnig hafa séð hann við náttúrubaðið Fontana á Laugarvatni. Bílstjórinn á að hafa reynt að smeygja farþegum sínum í rúgbrauðs-smakk saman við hóp Mörtu.

„Ég fór í afgreiðsluna og spurði hvort þessir gestir væru búnir að borga og hvort þau ættu þá að vera þarna - það var ekki,“ skrifar Marta á Facebook.

Aðrir leiðsögumenn í hópnum benda á að um sé að ræða sænska ferðaskrifstofu og að svokölluð sjóræningjaleiðsögn sé vel þekkt innan bransans.

„Er svona dýrt að nýta íslenskar rútur og leigubílstjóra, að það borgi sig að flytja inn bíl frá Svíþjóð með bílstjóra að sjá um þetta?“ skrifar Hjördís Vilhjálmsdóttir við færsluna.

Þá er einnig til Facebook-hópur undir yfirskriftinni „Stöðvum sjóræningjaleiðsögn á Íslandi“ þar sem íslenskir leiðsögumenn skiptast á sögum og upplýsingum um stöðu mála. Þeir segja að erlendar ferðaskrifstofur sendi ófaglærða og réttindalausa leiðsögumenn hingað til lands.