Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) og
Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs SA, segja ásakanir formanns VR á hendur sér vera ósannar.

Ragnar Þór Ingólfsson sagði í samtali við Fréttablaðið á fimmtudag að hann telji margt benda til þess að Halldór og Davíð hafi beitt sér fyrir því að lífeyrissjóðirnir fjárfestu í Lindarvatni ehf.

Báðir hafi þeir starfað hjá Icelandair Group þegar kaupin áttu sér stað árið 2015 samhliða því að stýra Lindarvatni.

Þá hafi fyrrum stjórnar­for­maður Lindar­vatns, Bogi Nils Boga­son, verið fjár­mála­stjóri Icelandair Group og tekið við forstjórastólnum hjá Icelandair á eftir Björgólfi Jóhannssyni sem var á sama tíma formaður SA. Samtökin tilnefna stjórnarmenn í fjölda lífeyrissjóða.

Björg­ólfur hafi síðan að sögn Ragnars „kippt á­byrgðar­mönnum Lindar­vatns ehf. og starfs­mönnum Icelandair Group, þeim Hall­dóri Benja­mín og Davíð Þor­láks­syni á nýjan starfs­vett­vang“ innan SA ári síðar.

Lífeyrissjóðir ekki fjármagnað kaupin

Í ítarlegri yfirlýsingu á vef SA færa Halldór og Davíð rök fyrir því að þeir hafi ekki getað beitt sér fyrir aðkomu lífeyrissjóðanna á sínum tíma.

Til að mynda hafi þeir ekki verið komnir til starfa hjá SA þegar lífeyrissjóðirnir tóku þátt í endurfjármögnun Lindarvatns og þeir sjálfir ekki komið að kaupunum á Lindarvatni þegar þeir störfuðu hjá Icelandair Group.

Þá myndi engum hjá SA né Icelandair „detta í hug að beita lífeyrissjóði þrýstingi þegar kemur að fjárfestingaákvörðunum þeirra.“ Slíkt væri bæði ólöglegt og ósiðlegt.

Tóku þátt í endurfjármögnun

„Í mars árið 2016 var Lindarvatn hins vegar endurfjármagnað, eins og áður hefur komið fram, en þá tók félagið nýtt lán, m.a. til að klára byggingarframkvæmdirnar á Landsímareitnum. Lindarvatn leitaði eftir og fékk tilboð í fjármögnunina frá bæði bönkum og lífeyrissjóðum. Að lokum var ákveðið að ganga til samninga við hóp tólf lífeyrissjóða en sjálfstæður aðili, Íslensk verðbréf, hélt utan um fjármögnunina.“

Sú endurfjármögnun hafi ekki tengst fyrri kaupum á hlutafé í Lindarvatni og ekkert af umræddum lánum, sem séu öll í skilum, hafi runnið til fyrrum hluthafa þess.

Enginn í beinum samskiptum við lífeyrissjóðina

Þá segja Halldór og Davíð að enginn hjá Icelandair eða Lindarvatni hafi verið í beinum samskiptum við lífeyrissjóðina í ferlinu. Samskiptin hafi öll farið í gegnum Íslensk verðbréf, sem hafi annast öflun tilboða og haldið utan um fjármögnunina fyrir hönd Lindarvatns.

„Það var því hvorki vilji, tilefni eða tækifæri til að beita einn né neinn þrýstingi af okkar hálfu vegna fjármögnunar framkvæmdanna á Landsímareitnum. Öllum ásökunum um slíkt er algerlega hafnað,“ segir í yfirlýsingunni.

Óska Halldór og Davíð eftir því að Ragnar dragi áðurnefndar fullyrðingar sínar til baka og biðji hlutaðeigandi afsökunar.

„Ella er óhjákvæmilegt að þau sem hafa orðið fyrir órökstuddum dylgjum hans íhugi réttarstöðu sína.“

Fréttin hefur verið uppfærð.