Írski fjölmiðillinn Independent.ie staðhæfir í frétt sinni í dag að Jón Þröstur Jónsson, sem hvarf sporlaust á Írlandi í fyrra, hafi verið myrtur af öðrum Íslendingi eftir að Jón Þröstur hafi tapað pening sem hann fékk hjá manninum á pókermóti. Fjölmiðillinn segir að manninn vera íslenskan glæpamann og að hann hafi myrt Jón fyrir slysni þetta kvöld í Dublin.
Vísir greindi fyrstur íslenskra miðla frá umfjöllun írska fjölmiðilsins í dag. Þar segir að maðurinn sem á að hafa myrt Jón sitji nú í fangelsi á Íslandi. Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjón hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, vill ekki staðfesta þessar upplýsingar við Fréttablaðið.
„Ég get staðfest að við höfum fengið ýmsar ábendingar sem hafa verið skoðaðar og viðraðar við írsk yfirvöld sem stýra rannsókn málsins. Meira get ég ekki sagt í bili,“ segir hann í skriflegu svari til fréttastofu.

Jón hvarf í febrúar í fyrra en síðast sást til hans í norðurhluta Dublin á gangi frá hóteli sínu. Hann dvaldi þar ásamt kærustu sinni til að taka þátt í pókermóti. Rannsókn málsins hafði lítið miðað áfram í langan tíma þangað til þessar nýju upplýsingar bárust til fjölskyldu Jóns frá öðrum manni sem situr einnig í fangelsi á Íslandi.
Í frétt Independent segir að peningur mannsins, sem á að hafa banað Jóni, hafi átt að nota til að fjármagna aðra pókerspilara. Jón hafi reynt að hætta að spila þegar hann fór að tapa pening en honum hafi verið meinað það og aðrir spilarar meira að segja beitt hann ofbeldi.