„Fyrir mig, þá er bara of­boðs­lega mikið á­fall að átta sig á því að vinnu­um­hverfi okkar var ó­heil­brigt. Og ég til dæmis var ekki með­vituð að það væri of­beldi eða eitt­hvað að, ég var komin að þeirri stöðu bara fyrir mig per­sónu­lega að ég sótti um starf annars staðar af því að ég hélt að ég hefði bara ekki það sem til þyrfti til að starfa þarna,“ segir Karen Lind Ólafs­dóttir, prestur við Digra­nes- og Hjalla­presta­kall, en hún er ein sex kvenna sem stigu fram í lok síðasta árs og á­sökuðu séra Gunnar Sigur­jóns­son, þá sóknar­prest við Digra­nes- og Hjalla­presta­kall, um kyn­ferðis­lega á­reitni, kyn­bundið of­beldi og ein­elti.

Karen Lind mætti í við­tal á Frétta­vaktina á Hring­braut í gær­kvöldi, á­samt Sunnu Dóru Möller, presti við Digra­nes- og Hjalla­presta­kall, sem steig einnig fram í lok síðasta árs með á­sakanir á hendur séra Gunnari.

Uppvís að kyn­ferðis­legri- sem og kyn­bundinni á­reitni

Í tæp­lega níu mánuði hefur óháð teymi, sem Þjóð­kirkjan setti á lag­girnar til að rann­saka mál séra Gunnars, haft málið til meðferðar. Teymið hefur nú lokið störfum og komist að niður­stöðu. Í skýrslu sem var birt í gær kemur fram að „sóknar­presturinn hafi í tíu til­vikum orðið upp­vís að hátt­semi sem stríði gegn á­kvæðum 3. gr. EKKO rg. Auk þess sem teymið metur hátt­semi sóknar­prestsins í orði og at­höfnum, eins og henni hefur verið lýst, ó­sæmi­lega, ó­hæfi­lega og ó­sam­rýman­leg starfi hans sem sóknar­prestur.“

Þá metur teymið hátt­semi sóknar­prestsins svo að í tveim til­vikum hafi hann orðið upp­vís að orð­bundinni kyn­ferðis­legri á­reitni gagn­vart tveimur þol­endum. Í þremur til­vikum metur teymið að hann hafi orðið upp­vís af orð­bundinni kyn­bundinni á­reitni gagn­vart tveimur ein­stak­lingum.

Í kjöl­far þessara niður­staða og í sam­ráði við teymið hefur biskup komist að þeirri niður­stöðu að víkja Gunnari úr starfi, en hann hefur látið af störfum. Auk þess er á­formað að veita honum skrif­lega á­minningu.

Stórt skref í að lýsa yfir stuðningi við þolendur

Að mati Sunnu Dóru er biskup að taka stórt skref í að lýsa yfir stuðningi við þol­endur of­beldis með því að víkja Gunnari úr starfi.

„Mér finnst á­kvörðunin hug­rökk af biskupi Ís­lands. Fyrstu við­brögð eru bara, í raun og veru, þakk­læti fyrir þennan far­veg sem okkur hefur verið gefinn innan kirkjunnar og að á okkur var hlustað og okkur var trúað með okkar reynslu,“ segir Sunna Dóra. Karen tekur undir orð Sunnu, og segir tæki­færið að koma fyrir ó­háða teymið sem hafði málið til með­ferðar, hafi aukið traust hennar á verk­ferlum kirkjunnar í slíkum málum.

„Þetta tæki­færi að fara fyrir nefndina með þetta mál gerði það að verkum fyrir mig að ég gat treyst því að bara með því að segja satt og rétt frá, þá væru þarna fag­aðilar sem gætu metið hvað var að eiga sér stað,“ segir Karen Lind, og bætir við „og fá síðan niður­stöðu sem er svona of­boðs­lega af­gerandi að það bara færi mig til að treysta betur þeim verk­ferlum sem eru núna til staðar.

„Sárt að heyra hann taka af­stöðu“

Þær Sunna Dóra og Karen Lind segja að málið hafi vakið tals­verða ólgu innan prests­stéttarinnar. Þá hafi for­maður Presta­fé­lags Ís­lands, séra Arnaldur Bárðar­son rætt málið efnis­lega í við­tali á Út­varpi Sögu, áður en skýrsla teymisins og niður­stöður voru gerðar opin­berar.

Karen Lind segist engan veginn hafa átt von á því að ein­hver úr þeirra röðum myndi stíga fram í fjöl­miðlum og ræða málið.

„Ég upp­lifði að Presta­fé­lagið ætti að starfa fag­lega og stíga var­lega til jarðar þegar það eru við­kvæm mál til um­fjöllunar. Á sama tíma og við sem eigum þátt í málinu eru bundin trúnaði, þá stígi hann fram og ræði per­sónu­leg mál­efni mín og per­sónu­lega reynslu mína á þessum vett­vangi. Mér fannst alveg ein­stak­lega sárt að heyra hann taka í rauninni af­stöðu þegar hann segir að þarna sé ekki um of­beldi að ræða heldur sam­skipta­vanda og valda­bar­áttu,“ segir Karen Lind.

Kirkjan lítill vinnu­staður með gríðar­lega á­byrgð

Spurðar um hvað þeim finnist um það að slík hegðun við­gangist meðal starfs­manna kirkjunnar segir Sunna Dóra að kirkjan verði aldrei undan­þegin því að slík menning verði til staðar.

„Kirkjan er fjölda­hreyfing og þarna eru mann­eskjur og mann­eskjur eru alls­konar. Prests­starfið gefur okkur engan af­slátt í raun og veru, það er bara þannig að við getum öll orðið sek um marka­leysi í sam­skiptum og við erum lítill vinnu­staður með gríðar­lega á­byrgð í okkar starfi og þurfum að standa vaktina,“ segir Sunna Dóra, og heldur á­fram „því er það mjög sárt að upp­lifa það á eigin skinni að hafa verið og bara, í raun og veru að orða: Ég er þolandi of­beldis. Samt út á við kem ég fram sem prestur og alltaf í styrk­leika.

Þær segjast báðar þakk­látar fyrir þann far­veg sem biskup Ís­lands, Frú Agnes M. Sigurðar­dóttir, hefur stofnað með því að setja á fót þetta ó­háða teymi sem tekur slík mál til með­ferðar.

„Í raun og veru, við sem prestar gátum farið og fengið þar skjól. Við erum bara mann­eskjur sem höfum upp­lifað of­beldi og fengum þetta skjól og á okkur var hlustað. Það er bara ó­trú­leg dýr­mætt,“ segir Sunna Dóra.

Ó­vissar um næstu skref

Spurðar segja þær enn ó­víst hver næstu skref séu í þeirra máli. Þær þurfi hvor um sig að meta það.

„Ég upp­lifi að ég sé í á­kveðinni for­réttinda­stöðu, sem kona í em­bætti, vel menntuð. Ég upp­lifi að ég þurfi bara að meta það fyrir mig. Þegar það er stað­fest að um of­beldi er að ræða, að fara þá og gefa skýrslu hjá lög­reglu. Ég þarf bara að­eins að fá tæki­færi til að jafna mig fyrst,“ segir Karen Lind.

Hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Sunnu Dóru Möller og Karen Lind Ólafsdóttur í heild sinni sem sýnt var í gærkvöldi á Fréttavaktinni á Hringbraut.