„Fyrir mig, þá er bara ofboðslega mikið áfall að átta sig á því að vinnuumhverfi okkar var óheilbrigt. Og ég til dæmis var ekki meðvituð að það væri ofbeldi eða eitthvað að, ég var komin að þeirri stöðu bara fyrir mig persónulega að ég sótti um starf annars staðar af því að ég hélt að ég hefði bara ekki það sem til þyrfti til að starfa þarna,“ segir Karen Lind Ólafsdóttir, prestur við Digranes- og Hjallaprestakall, en hún er ein sex kvenna sem stigu fram í lok síðasta árs og ásökuðu séra Gunnar Sigurjónsson, þá sóknarprest við Digranes- og Hjallaprestakall, um kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti.
Karen Lind mætti í viðtal á Fréttavaktina á Hringbraut í gærkvöldi, ásamt Sunnu Dóru Möller, presti við Digranes- og Hjallaprestakall, sem steig einnig fram í lok síðasta árs með ásakanir á hendur séra Gunnari.
Uppvís að kynferðislegri- sem og kynbundinni áreitni
Í tæplega níu mánuði hefur óháð teymi, sem Þjóðkirkjan setti á laggirnar til að rannsaka mál séra Gunnars, haft málið til meðferðar. Teymið hefur nú lokið störfum og komist að niðurstöðu. Í skýrslu sem var birt í gær kemur fram að „sóknarpresturinn hafi í tíu tilvikum orðið uppvís að háttsemi sem stríði gegn ákvæðum 3. gr. EKKO rg. Auk þess sem teymið metur háttsemi sóknarprestsins í orði og athöfnum, eins og henni hefur verið lýst, ósæmilega, óhæfilega og ósamrýmanleg starfi hans sem sóknarprestur.“
Þá metur teymið háttsemi sóknarprestsins svo að í tveim tilvikum hafi hann orðið uppvís að orðbundinni kynferðislegri áreitni gagnvart tveimur þolendum. Í þremur tilvikum metur teymið að hann hafi orðið uppvís af orðbundinni kynbundinni áreitni gagnvart tveimur einstaklingum.
Í kjölfar þessara niðurstaða og í samráði við teymið hefur biskup komist að þeirri niðurstöðu að víkja Gunnari úr starfi, en hann hefur látið af störfum. Auk þess er áformað að veita honum skriflega áminningu.
Stórt skref í að lýsa yfir stuðningi við þolendur
Að mati Sunnu Dóru er biskup að taka stórt skref í að lýsa yfir stuðningi við þolendur ofbeldis með því að víkja Gunnari úr starfi.
„Mér finnst ákvörðunin hugrökk af biskupi Íslands. Fyrstu viðbrögð eru bara, í raun og veru, þakklæti fyrir þennan farveg sem okkur hefur verið gefinn innan kirkjunnar og að á okkur var hlustað og okkur var trúað með okkar reynslu,“ segir Sunna Dóra. Karen tekur undir orð Sunnu, og segir tækifærið að koma fyrir óháða teymið sem hafði málið til meðferðar, hafi aukið traust hennar á verkferlum kirkjunnar í slíkum málum.
„Þetta tækifæri að fara fyrir nefndina með þetta mál gerði það að verkum fyrir mig að ég gat treyst því að bara með því að segja satt og rétt frá, þá væru þarna fagaðilar sem gætu metið hvað var að eiga sér stað,“ segir Karen Lind, og bætir við „og fá síðan niðurstöðu sem er svona ofboðslega afgerandi að það bara færi mig til að treysta betur þeim verkferlum sem eru núna til staðar.
„Sárt að heyra hann taka afstöðu“
Þær Sunna Dóra og Karen Lind segja að málið hafi vakið talsverða ólgu innan prestsstéttarinnar. Þá hafi formaður Prestafélags Íslands, séra Arnaldur Bárðarson rætt málið efnislega í viðtali á Útvarpi Sögu, áður en skýrsla teymisins og niðurstöður voru gerðar opinberar.
Karen Lind segist engan veginn hafa átt von á því að einhver úr þeirra röðum myndi stíga fram í fjölmiðlum og ræða málið.
„Ég upplifði að Prestafélagið ætti að starfa faglega og stíga varlega til jarðar þegar það eru viðkvæm mál til umfjöllunar. Á sama tíma og við sem eigum þátt í málinu eru bundin trúnaði, þá stígi hann fram og ræði persónuleg málefni mín og persónulega reynslu mína á þessum vettvangi. Mér fannst alveg einstaklega sárt að heyra hann taka í rauninni afstöðu þegar hann segir að þarna sé ekki um ofbeldi að ræða heldur samskiptavanda og valdabaráttu,“ segir Karen Lind.
Kirkjan lítill vinnustaður með gríðarlega ábyrgð
Spurðar um hvað þeim finnist um það að slík hegðun viðgangist meðal starfsmanna kirkjunnar segir Sunna Dóra að kirkjan verði aldrei undanþegin því að slík menning verði til staðar.
„Kirkjan er fjöldahreyfing og þarna eru manneskjur og manneskjur eru allskonar. Prestsstarfið gefur okkur engan afslátt í raun og veru, það er bara þannig að við getum öll orðið sek um markaleysi í samskiptum og við erum lítill vinnustaður með gríðarlega ábyrgð í okkar starfi og þurfum að standa vaktina,“ segir Sunna Dóra, og heldur áfram „því er það mjög sárt að upplifa það á eigin skinni að hafa verið og bara, í raun og veru að orða: Ég er þolandi ofbeldis. Samt út á við kem ég fram sem prestur og alltaf í styrkleika.
Þær segjast báðar þakklátar fyrir þann farveg sem biskup Íslands, Frú Agnes M. Sigurðardóttir, hefur stofnað með því að setja á fót þetta óháða teymi sem tekur slík mál til meðferðar.
„Í raun og veru, við sem prestar gátum farið og fengið þar skjól. Við erum bara manneskjur sem höfum upplifað ofbeldi og fengum þetta skjól og á okkur var hlustað. Það er bara ótrúleg dýrmætt,“ segir Sunna Dóra.
Óvissar um næstu skref
Spurðar segja þær enn óvíst hver næstu skref séu í þeirra máli. Þær þurfi hvor um sig að meta það.
„Ég upplifi að ég sé í ákveðinni forréttindastöðu, sem kona í embætti, vel menntuð. Ég upplifi að ég þurfi bara að meta það fyrir mig. Þegar það er staðfest að um ofbeldi er að ræða, að fara þá og gefa skýrslu hjá lögreglu. Ég þarf bara aðeins að fá tækifæri til að jafna mig fyrst,“ segir Karen Lind.
Hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Sunnu Dóru Möller og Karen Lind Ólafsdóttur í heild sinni sem sýnt var í gærkvöldi á Fréttavaktinni á Hringbraut.